Ábyrgð fasteignasala og kennitöluflakk

Sem vísbending um ábyrgðaleysi fasteignasala og skertan rétt þeirra sem njóta þjónustu þeirra hefur framhald á því máli sem meðfylgjandi grein á blogginu frá því september 2016 orðið vísir að hugsanlegu kennitöluflakki.

Fyrirtæki sem ber nafnið Hóll fasteignasala varð fyrir alvarlegum skakkaföllum eins og meðfylgjandi grein á Blogginu frá því í september 2016 ber með sér. Starfsmenn fasteignasölunnar voru staðnir að því að virða ekki rétt kaupanda að fasteign er var í söluumboði hjá fasteignasölunni.

Var framferði starfsmanna fasteignasölunnar kært til Félags fasteignasala og síðan til eftirlitsnefndar//kærunefndar er fjallar um kærur á hendur fasteignasölum.

Þegar umræddar kærur á hendur fasteignasalanum eru búnar að velkjast um í fórum kærunefndar um störf fasteignasala án þess að niðurstaða nefndarinnar hafi borist kærendum þá er birt heilsíðu auglýsing í Fréttablaðinu um nýja fasteignasölu undir nafninu „450 fasteignasala“. Það sem vekur undrun hjá kærendum er að þeir sem standa að umræddri fasteignasölu eru sömu aðilar og störfuðu hjá Hóli fasteignasölu að Engjateigi 9, Reykjavík ásamt þeim sem skráður hafði verið sem fasteignasali fyrir fyrirtækið Hóll fasteignasala. Er kominn nýr aðili sem skráður er einnig sem fasteignasali.

Þessi nýja fasteignasala 450 fasteignasala er til húsa samkvæmt auglýsingu í sama húsnæði og Hóll fasteignasala var eða er enn þá.

Þar sem ekki hefur borist niðurstaða frá umræddri kærunefnd um störf fasteignasala og verið furðuleg þögn um málið er næsta verk að fá upplýst um tilgang kærunefndarinnar og hvort umrædd kærunefnd sé einhvers konar hreinsunardeild fyrir fasteignasala til að gefa þeim fasteignasölum sem ekki fara að lögum tíma til að fara í kennitöluflakk.

Af því framferði er hér hefur verið lýst er ljóst hve lög sett af Alþingi eru lítils virði þegar kemur að rétti þegnanna. Lög um starfsemi fasteignasala og skyldur þeirra til að vera fulltrúi beggja aðila, bæði seljanda og kaupanda, eru þingmönnum Alþingis Íslendinga til vansæmdar og lýsir takmörkuðum eða engum skilningi á tilgangi eða gildi laga.

Kennitöluflakk fasteignasala hefur verið þekkt til margra ára án þess að ljóst hafi verið alltaf ástæða þess að farið var á flakk.

Með vísan til þess sem fram kemur í fyrri grein um þetta mál er staðfesting á heimasíðu hins nýja fyrirtækis á því sem fram kemur um kæru á hendur aðilum fyrir að hlunnfara kaupendur fasteigna.

Á heimasíðu fyrirtækisins „450 fasteignasala“ er boðið upp á valmöguleikann sem heitir „um okkur“ og er þar átt við upplýsingar um þjónustuna sem í boði eru hjá fasteignasölunni. Sjá eftirfarandi texta sem birtur er á heimasíðu „450 fasteignasala“ undir liðnum "um okkur":

================================================================================

Þú ert á réttum stað!

Það er okkar markmið hjá 450 fasteignasölu að veita seljandanum þá allra bestu þjónustu sem völ er á. Þínar óskir og hagsmunir skipta okkur öllu máli og við leggjum okkur alla fram að koma til móts við þínar þarfir.

Það getur virst flókið og erfitt að selja fasteign. Margar spurningar vakna, eins og hver gerir hvað og hvernig þetta allt fer fram. Við leitumst við að gera þetta ferli einfalt og aðgengilegt fyrir þig.

Með mikilli reynslu og hnitmiðaðri markaðssetningu, seljum við eignina þína fljótt og örugglega. Við metum til hvaða kaupendahóps eignin þín getur höfðað og markaðssetjum hana út frá því.

Við skiljum hversu mikilvægt það er fyrir þig að hafa yfirsýn yfir söluferlið. Seljandi fær því upplýsingar um væntanlegar auglýsingar, söluáætlun og mögulegan markhóp.

Okkar helstu markmið eru: Að okkar viðskiptavinir fái alltaf fyrirmyndar þjónustu þannig að allir séu ánægðir og geti hiklaust mælt með okkur við aðra sem eru í söluhugleiðingum.

==============================================================================

Í texta þessum frá fasteignasölunni kemur fram viðurkenning á réttmæti þeirrar kæru sem lögð hefur verið fram gegn umræddri fasteignasölu er nefnd er Hóll.

Í textanum er þess getið sérstaklega að 450 fasteignasala hefur að markmiði að veita seljendum þá allra bestu þjónustu sem völ er á. Kæran á hendur fasteignasölunni Hóli er byggð á þessari þjónustu sem veitt er þrátt fyrir ákvæði laga um það að fasteignasali skuli vera fulltrúi bæði seljanda og kaupanda.

Starfsreglur þessarar fasteignasölu virðast ætla að vera eins og þær reyndust vera hjá fasteignasölunni Hóli, að hin fullkomna þjónusta skuli aðeins vera fyrir seljendur og þar með að geta mögulega hlunnfarið kaupendur.

Reykjavík 21. janúar 2017

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri

Sjá áður birta grein undirritaðs á BLOGGINU um ábyrgð fasteignasala.

---------------------------------------------------------------------------------------

Ábyrgð fasteignasala

Samkvæmt lögum er fasteignasala falið það hlutverk að vera fulltrúi beggja aðila, kaupanda og seljanda fasteigna.

Ef grannt er skoðað er það fáránlegt að ætla einum aðila að hafa tvær skoðanir jafngildar á sama tíma hverju sinni.

Upp er komið atvik við sölu fasteignar þar sem fasteignasali sem fulltrúi kaupanda vann gegn hagsmunum kaupandans. Staða málsins er sú að eftir undirritun kaupenda og samþykkis á gagntilboði seljanda, og þar með var kominn á bindandi samningur milli aðila, þá snýst forstjóri fasteignasölunnar gegn hagsmunum kaupanda. Þótt kaupendur hafi staðið við allar sínar skuldbindingar tilboðsins varðandi greiðslur og aðra þætti samningsins og kaupendur margt oft farið fram á að gengið verði formlega frá málum með undirritun á svokölluðum kaupsamningi, sem er formsatriði, hunsaði fasteignasalinn það með margs konar afsökunum.

Að kröfu fasteignasölunnar lögðu kaupendur inn hjá fasteignasölunni pappíra upp á greiðslu rúmlega 28 milljóna króna vel tímalega, með vísan til ákvæðis í samningi um tímalengd fjármögnunar á kaupum, svo hægt væri að ganga frá málum.

Vegna trassaskapar fasteignasalans, varðandi afgreiðslu málsins í tæpa tvo mánuði, var umræddum samningi, samþykktu gagntilboði seljenda, þinglýst hjá sýslumanni ef með því væri hægt að knýja fram afgreiðslu málsins. Var fasteignasalanum strax tilkynnt um þinglýsingu samningsins.

Fasteignasalinn brást ókvæða við með stóryrðum vegna þinglýsingarinnar en hélt áfram sínum slóðaskap og tvískinnungi og hunsaði afgreiðslu málsins þar til hann tilkynnti munnlega og síðan í tölvupósti að eigendur (seljendur) væru hættir við sölu. Í framhaldi af þeirri tilkynningu sagði fasteignasalinn að samningsbundnir kaupendur gætu gert nýtt tilboð í eignina. Með þeirri yfirlýsingu fasteignasalans gaf hann í skyn að það þyrfti að hækka verðið þrátt fyrir þann bindandi samning sem þegar lá fyrir.

Með yfirlýsingu fasteignasalans kom enn og aftur skýrt fram sá óheiðarleiki sem kaupendum hafði verið sýndur af hálfu fasteignasalans eins og fram koma í tölvupóstsendingum frá fasteignasölunni. Þrátt fyrir ítrekaðar kröfur kaupenda til fasteignasalans um að lögð yrði fram skrifleg yfirlýsing seljenda um að þeir hygðust hverfa frá sölunni hefur slíkt ekki fengist.

Þremur vikum eftir að fasteignasalanum var tilkynnt um þinglýsingu, þegar gerðs bindandi kaupsamnings vegna eignarinnar, viðurkenndi hann að hann hefði ekki tilkynnt seljendum um þá framkvæmd (þinglýsinguna) en bauð upp á að kaupendur leggðu fram nýtt kauptilboð.

Þetta mál sýnir þann alvarlega veikleika í lögum um starfsemi fasteignasala að fasteignasali sé fulltrúi beggja aðila, kaupanda og seljanda.

Yfirleitt eru fasteignakaup og sala fasteignar tekin mjög alvarlega af beggja hálfu, kaupanda og seljanda. En með óheiðarlegum aðila (fasteignasala), er annast milligöngu um sölu og kaup fasteignar eins og hér er lýst, þá er slíkur gjörningur af hálfu fasteignasala reiðarslag fyrir kaupendur.

Ef það er stefna stjórnvalda að skapa þurfi ný störf fyrir lögfræðinga til að annast samningagerð fyrir kaupendur með tilheyrandi kostnaði við kaupin, auk tveggja ára slóðaskapar af hálfu dómstóla við afgreiðslu mála, væri æskilegt að það væri upplýst.

Er hér enn og aftur bent á ófullnægjandi afgreiðslu Alþingis (alþingismanna) á samskiptareglum þegnanna sem kallaðar eru lög en eru í raun lögleysa því ekki er hægt að fara eftir þeim (lögunum, samskiptareglunum). Sú ókurteisi alþingismanna við setningu laga að hinn almenni þegn þurfi að leggja út í ómældan kostnað við málarekstur fyrir dómi til þess að ná fram rétti sínum, við eins einfaldan gjörning og fasteignakaup eru, er óásættanlegt.

Eftir undirritun kauptilboðs eða gagntilboðs af hálfu kaupanda og seljanda við fasteignakaup á sá aðili sem stendur við sinn hluta af samningnum, í þessu tilviki kaupandi, ekki að þurfa að standa í margra mánaða baráttu fyrir dómstólum ef seljandi vill falla frá sölu af annarlegum löglausum ástæðum. Afgreiðsla slíkra mála með úrskurði þar til bærra aðila á ekki að taka meira en 7-10 daga (5-8 virkra daga) og á kostnað ríkisins ef lög eru ekki nægjanlega skýr.

Reykjavík 21.september 2016

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri

BLOGG --- 2180507


Heilaþvottur eða háðung

Í sjónvarpsþættinum um jökla á Íslandi sem sýndur var á sunnudagskvöld 15. janúar 2017 er gerð tilraun til að fá Íslendinga til að trúa þeirri kenningu að hlýnun í lofthjúp jarðar sé manninum að kenna. Þ.e. að gjörðir mannskepnunnar sé orsakavaldur að því að loftslag er sagt heitara á jörðinni en fyrir 70 árum.

Sjónvarpsþátturinn var að mörgu leiti fróðlegur um jökla og landslag á Íslandi.

Í þætti þessum kom fram að á árunum 1200 – 1300 hafi hiti lækkað á Íslandi og jöklar skriðið fram og all nokkrir landnámsbæir hafi lent undir skriðjöklum á næstu öldum. Þetta kuldaskeið hafi varað í um 500 til 600 ár þegar aftur fór að hlýna.

Ekki var þess getið af fræðimönnunum (konum og körlum) sem fram komu í þættinum hvað hafi valdið því að hitastig lækkaði á þessu svæði er orsakaði framskrið jöklanna og kaffæringu landnámsbæja. Því var ekki haldið fram að kólnunin stafaði af mannavöldum.

Eftir skemmtilega og fróðlega fyrirlestra fræðimannanna þurfti í lok þáttarins að koma með yfirlýsingar um að gerðir mannsins á jörðinni hafi orsakað það að lofthjúpurinn hlýni og jöklar hopi. Yfirlýsingar fræðimannanna eru án nokkurrar stoðar í raunveruleikanum og sennilega aðgerðir sem frægur vísindamaður og rithöfundur hefur skrifað mikið um. Þar stendur að fullyrðingar vísindamanna um hlýnun jarðar eigi rót sína að rekja til þess að of litlu fjármagni sé veitt til rannsókna er þau stunda og þau vilji fá meira fé til að halda atvinnunni. Kemur fram hjá þessum vísindamanni að engar vísindalegar sannanir finnist um þátt mannsins í hlýnun jarðarinnar.

Eftirfarandi spurningar vakna við áhorf á umræddan sjónvarpsþátt og það sem sjá má í vísindagreinum sem ritaðar voru á fyrri hluta síðustu aldar og á nítjándu öld.

Ef litið er á mótsagnir í framburði nútíma spekinga sem kenna mannskepnunni um hlýnun jarðar er fjöldi spurninga sem ekki hafa fengist svör við, s.s.

1. Hvar komu gjörðir mannsins að tilkomu svokallaðra ísalda á jörðinni?

2. Hverjar voru orsakir á hitabreytingum er leiddu til ísalda eða hlýnunar eftir ísaldir? Ath. ísaldarskeið hafa verið fleiri en eitt samkvæmt fræðigreinum.

3. Hvar og hvenær kom mannshöndin að tilkomu þess sem fræðimennirnir í sjónvarpsþættinum kölluðu Litlu ísöld á Íslandi frá um 1300 til um 1900?

4. Hvar kom mannshöndin að og hafði áhrif á hita og gróður á Íslandi þegar trjágróður var slíkur á Íslandi, eins og sverir trjábolir haf sýnt sem grafnir hafa verið úr jörðu?

5. Eru það ósannindi sem ritað er í ritverk sem gefið var út um 1940 og heitir „Undur Veraldar“ um hitasveiflur á jörðinni o.fl. á liðnum árþúsundum?

6. Í ritverki „Undur veraldar“ er þess getið að hitabeltisloftslag hafi verið í N -Ameríku og suður hluta Canada á fyrri tíð og gróður eftir því. Er þetta ósatt?

7. Hitastig í norður Canada og Grænlandi hafi verið eins og í Tempruðu beltunum í dag og gróður eftir því, barr- og laufskógar. Hvar kom maðurinn að þeirri loftslagsbreytingu?

8. Hefur hlutfall súrefnis í andrúmsloftinu breyst (lækkað) svo mælanlegt sé við fólksfjölgun á jörðinni úr um 1000.000.000 manna á fyrri hluta tuttugustu aldar (1900-1940) í um 11.000.000.000 manns á 70-80 árum síðar eða undir lok tuttugustu aldar?

9. Samkvæmt heimildum úr bókinni „Undur veraldar“ þá á hlutfall súrefnis í andrúmslofti jarðar að hafa verið um 30% fyrir einhverjum þúsundum eða milljónum ára. Hvað hafði breyst og orsakað þá breytingu að í byrjun 20-aldar var hlutfall súrefnis í andrúmslofti jarðar komið niður í um 21%?

10. Hve mikil er hlutfallsleg aukning á CO2 (í prósentum) á sólarhring í andrúmsloftinu frá öndun manna við fjölgun manna úr 1000.000.000 í 11.000.000.000 á síðustu 70-80 árum?

11. Er þessi kenning um gróðurhúsaáhrif af völdum gjörða mannsins ekki í anda múgsefjunar án nokkurra staðreynda annarra en þeirra að hiti hefur aukist í lofthjúp jarðar eins og áður hefur átt sér stað án aðgerða mannsins þar að, með vísan til ísalda og hitaskeiða á milli ísalda?

12. Ef aðgerðir mannsins eru orsakir að hlýnun jarðar er þá ekki þörf á að aflífa á bilinu 4- til 6.000.000.000 eða fleiri manneskjur á jörðinni til að stöðva aukningu á CO2 í andrúmsloftinu og snúa hitasveiflunni við?

Ef vísindamenn treysta sér til að svara ofanrituðum spurningum væri það vel gert.

Reykjavík 18. janúar 2017

Kristján S. Guðmundson

fv. skipstjóri


Viðreisnar pólitík.

Í aðdraganda að skipun nýrrar ríkisstjórnar virðist vera all sérstakur framgangsmáti hjá formanni Viðreisnar með ummælum hans um Væntanlegan forsætisráðherra.

Slök dómgreind og klúður er haft eftir formanni Viðreisnar um Bjarna Benediktsson tilvonandi forsætisráðherra.

Þessi ummæli sýna að ekki er mikið traust á milli þeirra sem standa að hugsanlegri ríkisstjórn Íslands.

Því má spyrja: Er það ekki dómgreindarskortur Benedikts formanns Viðreisnar að ætla sér að setjast í ríkistjórn með dómgreindarlausum klúðrara sem forsætisráðherra, að mati Viðreisnarformannsins? Þessi ummæli Viðreisnarformannsins lýsir alvarlegum dómgreindarskorti hans sjálfs að ætla sér að setjast í ríkisstjórn aðeins til að fá ráðherrasæti áður en hann dettur út af þingi í næstu kosningum.

Þessi ummæli Viðreisnarformannsins um væntanlegan forsætisráðherra eru undarleg í ljósi þess að ekki hefur verið upplýst hvort þær upplýsingar sem taldar eru í umræddri skýrslu, er fjármálaráðherra fékk, séu þess eðlis að þær haf einhver pólitísk áhrif. Þessi skýrsla getur gefið vísbendingu um slaka lagsetningu af hálfu alþingismanna er varða fjárhagskerfið og fjármálastefnu ríkisins á undanförnum árum auk þess að vera verkefni fyrir skattayfirvöld til úrvinnslu.

Ef um dómgreindarleysi er að ræða í þessu máli er skortur á dómgreind hjá Viðreisnarformanninum að ætla sér í stjórnarsamstarf með manni, sem að hans mati er með slaka dómgreind og er klúðrari og formaðurinn treystir ekki.

Niðurstaðan verður sú að allt er gerandi til að fá að verma ráðherrastól og þá er allt í lagi að selja landráðastefnuna hans sjálfs, Viðreisnarformannsins, um inngöngu í þrælabúðir Efnahagsbandalagsins, fyrir ráðherrastól.

Af þeim fréttum sem fengist hafa um skýrsluna er verið að upplýsa að lagasetningar frá Alþingi á síðustu áratugum hafi einkennst af dómgreindarskorti alþingismanna er varðar stjórnun á fjármála- og efnahagskerfi landsins.

Reykjavík 10. janúar 2017

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Tilgangur lífsins

Í svokallaðri sköpunarsögu Biblíunnar er þess getið að guð hafi skapað himinn og jörð. Hann hafi svo fullkomnað verk sitt með sköpun Adams og Evu sem síðan eignuðust syni. Ekki er þess getið að þau hafi eignast dætur. Þegar synirnir uxu úr grasi og komust á kynþroska aldurinn fóru þeir, synirnir, til næsta bæjar og sóttu sér konur.

Þar sem ekkert verður til úr engu verður frásögn þessi eilítið draumórakennd og vekur upp fjölda spurninga. Ein aðal spurningin sem vaknar við skynjun skepnunnar á tilveru sinni er: Hver er tilgangurinn með tilverunni?

Þrátt fyrir aðkomu ótal aðila sem kallaðir hafa verið vísindamenn þá hefur lítið orðið ágegnt í skilgreiningu á tilurð eða tilgangi himingeimsins með öllum sínum margbreytileika og leyndardómum.

Spurningar eins og:

Hvað er himingeimurinn stór?

Hvað er himingeimurinn gamall?

Er himingeimurinn endanlegur eða óendanlegur?

Hvernig varð himingeimurinn til?

Hvað var fyrir áður en núverandi himingeimur varð til?

Ef himingeimurinn er endanlegur – hvað er þá hinum megin við endamörkin?

Frásagnir fræðimanna um tilurð heimsins. Að hann hafi orðið til við svokallaðan „Miklahvell“ og síðan talað um útþenslu himingeimsins. Þetta vekur upp spurninguna –

Hvað sprakk við Miklahvell?

Hvað var til á undan þessum Miklahvelli sem gat sprungið?

Ef eitthvað var til fyrir Miklahvell hvernig er þá hægt að halda fram þeirri fullyrðingu að upphaf alheimsins hafi orðið við Miklahvell?

Var rými fyrir útþenslu himingeimsins eftir Miklahvell?

Ef fyrir hendi var rými til útþenslu – hvers eðlis var það rými og hvaðan kom það?

Rýmið sem var fyrir þegar Miklihvellur varð (hugarfóstur vísindamanna) er vísbending um að eitthvað hafi verið fyrir og Miklihvellur sé ein af nútíma skýringum á ofurkraftinum sem ekki hefur verið hægt að skilgreina á viðunandi hátt.

Spurningin um hvað sprakk gefur tilefni til að álykta það að eitthvað hafi verið til fyrir þennan hvell (sprengingu) og þá hvað var það?

Þótt mörg fyrirbæri í tilverunni hafi fengið einhverjar skýringar eins og þyngdarlögmálið og að jörðin sé óslétt kúla sem snúist í kringum það sem við köllum sól þá hefur það ekki leyst gátuna um tilurð hins áþreifanlega í tilverunni né tilgang hennar. Er tilveran áþreifanleg eða ímyndun?

Í fyrndinni þegar dýrið maður fór að skynja tilvist sína fór hann að velta fyrir sér mörgum fyrirbærum sem urðu á lífsleið hans en hann fann engar haldbærar skýringar. Þessi skortur á skýringum leiddi til hinnar margslungnu lausnar á því sem ekki skildist. Kom þá fram hugmyndin að um væri að ræða einhvern óskilgreindan ofurkraft sem réði öllu og stjórnaði þeim fyrirbærum sem dýrið maður skyldi ekki. Þetta var ekki óskynsamleg skýring en afleiðingin var upphaf trúarbragða. Allt sem ekki var hægt að skýra var eignað þessum ofurkrafti. Ofurkrafturinn hlaut nafnið guð.

Í framhaldi af uppfinningunni um hinn guðlega eiginleika eða ofurkraft þá komu fram á sjónarsviðið valdagráðugir einstaklingar sem tókst að nýta sér þann ótta sem skapaðist við tilkomu trúarinnar (skýringarinnar á ofurkraftinum) á hið yfirnáttúrulega afl. Þessir valdagráðugu einstaklingar þóttust vera sendiboðar hins guðlega ofurkrafts og kyntu vel undir þann ótta sem varð á meðal fjöldans og náðu þar með valdi yfir fólkinu í krafti óttans.

Ef það er tilgangur tilverunnar að einstaka málglaðir fósar geti náð völdum yfir fjöldanum með fagurgala og ósannindum er tilgangurinn mjög furðulegur og óskiljanlegur eins og ótal margt í hinni svokölluðu tilveru efnis og lífvera.

Eftir að hafa skynjað tilveru sína er erfitt að ímynda sér eða skilja að til sé það ástand að ekkert geti verið til. Algjört núll í efni tíma og rúmi.

Eru trúarbrögð blessun eða bölvun mannkynsins?

Trúarbrögð hafa þróast í margar áttir eins og fjöldi trúarkenninganna er orðinn. Er það svo að nýjar trúarkenningar eru enn að koma fram án þess að um einhvern nýjan boðskap sé að ræða og eru þar á ferðinni valdagráðugir aðilar sem vilja ná undir sjálfa sig meiri völdum. Öll afbrigði trúarbragðanna eru tilkomin vegna tilkomu valdagráðugra loddara sem á ótrúlegan hátt laða saklausa nágranna sína að kenningum sínum með óskiljanlegu málskrúði sem ekki stenst rökræður meðal skynsamra dýra sem kallast menn. Þrátt fyrir að fjöldi manna hafi unnið hörðum höndum og heilshugar að því að finna skýringar á ofurkraftinum (guðinum) sem hefur heillað mannkynið þá er árangurinn æði rýr sem betur fer.

Svo langt hefur verið gengið í trúarbragðakenningum að verstu ódæðisverk sem framin hafa verið af dýrinu sem kallast maður hafa verið framin í nafni trúar undir stjórn valdagræðgi manna.

Dýrið maður hefur komist að því að um einhvers konar hringrás er að ræða á öllum sviðum, hvort sem um er að ræða jarðkúluna sjálfa, lífríkið á jörðinni eða önnur fyrirbæri sem verða eins og breytingar í veðri.

Spekingar í hópi mannskepnunnar haf lengi glímt við það áhugamál að búa til það sem kalla mætti eilífðarvél. Vél sem ekki þyrfti neitt viðhald eða eftirlit en héldi viðstöðulaust áfram sínu framleiðslustarfi. Þessi eilífðarvél mannsins hefur ekki enn séð dagsins ljós en hefur alla tíð verið fyrir augum mannsins. Er þar um að ræða sjálft sólkerfið með sinni eilífðar hringrás þar sem allt er endurunnið.

Á jörðinni fer fram stöðug endurvinnsla á öllum sviðum. Jörðin endurvinnur sjálfa sig með jarðskorpuhreyfingum og eldgosum en jarðskorpumyndanir veðrast síðan og breytast. Hið sama gerist með allt annað á jörðinni hvort sem það er veður eða lífríki. Stöðug endurnýjunarhringrás án sjáanlegs tilgangs.

Það sem ennfremur er ljóst varðandi endurvinnslu og hringrás er hin sögufræðilega staðreynd að valdagráðugir einstaklingar koma stöðugt fram á sjónarsviðið og virðist lítil eða engin breyting verða á framferði hinna valdagráðugu þótt aldir séu orðnar margar. Ekki er sjáanlegur tilgangur með tilkomu þessara valdagráðugu aðila nema síður sé.

Þar með er aftur komið að spurningunni hver er tilgangurinn. Nærtækasta skýringin er að þetta sé hringrás án tilgangs.

Ef hugleitt er eðli trúarbragða og þær kenningar er tengjast þeim. Í upphafi skapaði guð himinn og jörð. Hinn algóði guð sem öllu stjórnar og skapaði manninn í sinni mynd.

Skapaði hann (guð) með því bæði gott og illt eða er hið illa í mannskepnunni áskapað eða lært og sköpunin því ekki fullkomin í upphafi?

Svona mætti koma víða við í trúmálum þar sem kenningar eru boðaðar. Sem dæmi úr boðskap trúaðra manna er ein hending sem mikið er notuð – „sem hann (guð) hefur velþóknun á“.

Þessi framsetning gefur til kynna að guð hafi ekki velþóknun á öllum mönnum og þá án nákvæmra skýringa. Það sem er sláandi í trúarboðskap og hefur verið um aldir eru þær fullyrðingar trúboðanna að þeir einir boði hinn eina sannleika og í mörgum tilvikum boðað sínar kenningar með vopnum og mannvígum sem fljótt á litið virðist vera andstætt því er kallast friður.

Önnur tilvitnun í kenningar er boðskapurinn – „fús þeim að líkna er tilheyrir sér (þ.e. guði)“. Þessi boðskapur gefur það skýlaust í skyn að það tilheyri honum ekki allir. M.ö.o. að mönnum sé skipt í mismunandi hópa með mismunandi gæðum eins og skýrt kemur fram í boðskap hinna valdgráðugu. Ef þið fylgið mér fáið þið umbun en þeir sem eru á móti mér verður refsað.

Þar með er komið fram eðli og skýringar á hinum mannlega þætti trúarbragðanna. Allt veikgeðja hugarfóstur mannsins þegar hann skilur ekki það sem gerist í kringum hann og hið ill- eða óskýranlega í tilverunni eru verk hins ofurmáttuga.

Rétt þykir að líta á þá hlið trúarbragðanna er snýr að sálarlífi mannskepnunnar eftir að hún fór að hugleiða tilvist sína. ((ath. við vitum ekkert hvort aðrar lífverur á jörðinni hugsi um lífið og tilveruna á svipaðan hátt og maðurinn og þar með ekkert útilokað. Allar lifandi verur berjast fyrir lífi sínu)). Eins og fram kemur í trúarbragðakenningum er mikið fjallað um lífið og dauðann. Þetta er gert án þess að neinar áþreifanlegar skýringar séu fyrir hendi eða hvort lífið sé ímyndun. Hvað er þá ímyndun?

Lífi er í flestum tilvikum fagnað en margir óttast dauðann sem er óhjákvæmilegur þáttur lífsins og endurnýjunar. Fjöldi manna leita huggunar í trúarbrögðum þegar dauðinn er annars vegar. Þeir fela sjálfan sig í hendur ofurmáttarins án þess að hafa fengið neinar haldbærar skýringar á hvað þar sé um að ræða en fá huggun (hugarró) í staðinn. Verður sá þáttur trúarbragðanna að teljast jákvæður.

Eftir sem áður er ekkert sem gefur afgerandi skýringu á tilgangi tilvistar eins eða neins og á jafnt við lífið sem slíkt eða alheiminn með öllu sem honum tilheyrir. Ekki er heldur hægt að hugsa þá hugsun til enda að ekkert væri til. Eitt allsherjar NÚLL.

Sú kenning var við lýði á síðustu öld , og vafalítið enn, að ekkert verður til úr engu og ekki sé hægt að eyða neinu. Það eina sem hægt er að gera er að umbreyta eða allt umbreytist í hringrás tilverunnar ef tilveran er til.

Er NÚLLIÐ jafn fjarstætt og óendanleiki himingeimsins svo og takmörkum á víðáttu geimsins með spurninguna hvað er hinum megin við endamörk himingeimsins.

Af framanrituðu er þekking mannsins líkt og eitt sandkorn á sandauðn SAHARA-eyðimerkurinnar á móti öllum öðrum sandkornum (spurningum) eyðimerkurinnar sem mannskepnan hefur ekki getað talið (eða svarað spurningunum) og óljóst hvort nokkurn tíman fæst svar við.

Er svar til við spurningunni um hver tilgangur lífs eða alheimsins sé önnur en aðild að eilífðar hringrás?

Reykjavík 9. janúar 2017

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Dómarar og vanhæfi dómara

Miklum pappír og miklu bleki hefur verið eytt í ritun um vanhæfi dómara í starfi. Vanhæfi er huglægt og teygjanlegt ákvæði í samskiptum manna í milli eins og fram hefur komið í því frétta- og pappírsflóði sem dengt hefur verið yfir landsmenn á síðustu mánuðum.

Hefur þetta vanhæfisflóð í fjölmiðlum verið sett fram til að breiða yfir margfalt verra athæfi af hálfu þeirra er gegna störfum dómara. Má þar nefna sem dæmi framferði dómara við úrskurð í máli þegar hafnað var að taka efnislega á máli er lá fyrir hjá dómstólnum en dómarar læddu sér út um hliðardyrnar í úrskurði sínum til að þurfa ekki að taka á starfsréttinda missi eins úr sama skóla og þeir, dómararnir. Var þar Hæstiréttur að verki. Um var að ræða mannréttindabrot á þeim er stefndi ríkinu fyrir tilraun til þjófnaðar með skattálagningu án neinnar stoðar í lögum.

Í öðru lagi er verið að breiða yfir framferði dómara í störfum sínum þegar þeir nota, vísvitandi, fölsuð gögn sem þeir byggja niðurstöður sínar á. Er þar um margfalt alvarlegri lögbrot að ræða en mistök við mat á eigin vanhæfi í dómsmáli eins og fjölmiðlaflóðið hefur snúist um. Vanhæfi í máli manns snýst um það hvort einhver tengsl séu, eða hafi verið, á milli dómara og aðila er tengist máli sem er til umfjöllunar. Hefur vanhæfi verið skýrt sem hvers konar tengsl aðila við fjárhagsaðgerðir eða tengsl manna í milli s.s. ættartengsl, kunningjar, vinnufélagar eða önnur samfélagstengsl manna í milli sem hugsanlega gæti orsakað að hinn taldi vanhæfi dómari stæði ekki heiðarlega að afgreiðslu máls í úrskurði sínum.

Aðeins sú ábending að hugsanlega stæði dómari, sem talinn væri vanhæfur, ekki heiðarlega að afgreiðslu máls vegna einhvers konar tengsla við málsaðila vekur upp spurninguna: Eru dómarar alltaf heiðarlegir? Afgreiða þeir ekki málin á færibandi eftir geðástandi hverju sinni og jafnvel á óheiðarlegan hátt vegna andúðar dómara á málsaðila án ástæðu eins og dæmi eru um.

Það að mál séu afgreidd í dómi á grundvelli falsaðra gagna eins og mörg dæmi eru um sýnir hve rotið réttarkerfið sé. Að málsaðilar með skriflegar sannanir um misnotkun dómara á fölsuðum gögnum, sem úrskurður er byggður á, skuli ekki fá leiðréttingu mála sinna bendir til skipulagðra mannréttindabrota (lögbrota) af hálfu þjóna réttarkerfisins.

Þar sem fjölmiðlaflóran er samstíga í því að fjargviðrast út af vanhæfi en hunsar að fjalla um hin augljósu lögbrot sem framin eru af dómurum við notkun falsaðra gagna o.fl. er það ljóst að um hreina yfirbreiðslu af hálfu fjölmiðla á þeim ósóma sem viðgengist hefur innan réttarkerfisins á liðnum áratugum varðandi lögbrot dómara í störfum sínum. Það að klóra yfir skriflegar staðreyndir um lögbrot dómara með stanslausum þvættingi um huglæga þætti vanhæfis sem er matsatriði hvers og eins er ekki uppbyggilegt. Það eru engin skráð lög sem skilgreina afdráttarlaust hvað sé vanhæfi og ekki vanhæfi. Ef slík lög væru fyrir hendi væri ekki þörf fyrir ofurflóð í fjölmiðlum um vanhæfið eins og átt hefur sér stað að undanförnu.

Fjölmiðlar forðast staðreyndir en reyna að efna til uppþota með vangaveltum út af huglægum þáttum vanhæfis sem útilokað er að fá botn í en gert aðeins í þeim tilgangi að æsa upp. Vanhæfisvandamálið er svo víðtækt, hvað varðar huglægan þátt þessa, að mál sem reka þyrfti fyrir dómi varðandi lögbrot dómara leiddi til þess að enginn dómari í hinu íslenska réttarkerfi væri hæfur til að fjalla um málið. Þeir (dómararnir) væru allir vanhæfir vegna tengsla. Þessi þáttur er fyrir utan það að enginn lögmaður fæst til að reka mál gegn dómara. Ástæða þessa ótta lögmanna við að reka mál gegn dómara fyrir lögbrot, er vegna þeirrar hættu er lögmenn telja, að hefndir allra dómara réttarkerfisins myndi beinast að viðkomandi lögmanni. Af framansögðu er allt gert af hálfu stjórnvalda og réttarkerfisins til að þagga niður öll mál er varða lögbrot af hálfu dómara.

Þar með er komið upp tvöfeldni í íslensku réttarkerfi þar sem ákveðnir aðilar hafa leyfi til að brjóta lögin sem má þá kalla „lögleg lögbrot“.

Reykjavík 8. janúar 2017

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Njála

Leiksýningin sem hlotið hefur nafnið Njála og var sýnd í sjónvarpinu á laugardagskvöld 7. janúar 2017 er eitt af furðufyrirbærum mannskepnunnar sem kallað er list. Þessi list (leiksýningin) er í ætt við hina frægu sögu um Nýju fötin keisarans. Verið er að drag áhorfendur á asnaeyrunum eins og í sögunni af keisaranum lánlausa og hafa af þeim (áhorfendum) fé í formi aðgangseyris.

Þessi leiksýning er slíkt nútímabull sem þrífst vegna hræðslu áhorfenda við að tjá sig, eins og hræðsla þegna keisarans, af ótta við að verða sér til athlægis fyrir skort á skilningi á nútíma list. List sem sett er fram til að hæðast að fólki. Í sögu keisarans þorði fólk ekki að tjá sig af ótta við að móðga keisarann en nútíma snobbarar þora ekki að upplýsa að þeir skilji ekki nútíma listamannabullið.

Hið svokallaða listasnobb er orðið mjög víðtækt í íslensku samfélagi því það þykir ekki fínt að skilja ekki listina og verða þar með utangarðs í umræðum manna á milli. Skiptir þá ekki máli hvort hinn svokallað list er í ætt við söguþráð hinnar margrómuðu sögu um keisarann og nýju fötin hans sem var blekking.

Á Íslandi virðist það vera orðin list að afskræma fyrri tíma bókmenntir í þeim tilgangi einum að upphefja sjálfan sig (höfund afskræmingarinnar). Er þetta önnur tilraun nútímarithöfundar til að gera lítið úr fyrri tíðar frásögnum hvort sem sagan, Njálssaga, er sönn, hálfsannleikur eða skáldsaga.

Verk þetta lýsir því sem hendir suma að geta ekkert af eigin rammleik nema afskræma það sem aðrir hafa gert. Slíkt er gert vegna eigin veikleika og getuleysis til að skapa sjálfstætt verk með eigin hugmyndaflugi. Þegar getuleysið er algert er lagt í að hæðast að verkum annarra í tilraun til að upphefja sjálfan sig sem er eini boðskapurinn sem birtist í þessu leikhúsverki. Höfundi hefði verið nær að hafa þetta verk á eigin forsendum og ótengt öllu sem áður hefur verið ritað. Honum hefði verið nær að skapa sitt eigið verk og sínar eigin persónur án afskræmingar á gjörðum snillings sem rithöfundi þessa verks tekst aldrei að nálgast það mikið að hann verði innan seilingar.

Því má velta fyrir sér hvort rithöfundur að umræddu leikriti hafi verið að stæla Halldór Kiljan Laxnes sem er annar íslenskur rithöfundur sem lagði út í það að klæmast á hinni frægu sögu fornaldar úr Rangárvallasýslu. Þessir tveir klámsagnahöfundar verða ekki hærra skrifaðir fyrir framlag sitt til íslenskrar menningar og verða komnir neðarlega í ruslaskúffur bókmentanna á meðan ritverk það er þeir hafa níðst á verður ofarlega í hugum Íslendinga.

Íslendingar almennt eru ekkert hrifnir af því að vera niðurlægðir, eins og þegnar keisarans sem ætlaði að fá sér ný föt, með loddarabrögðum leikhússins og niðurlægingu íslenskra fornbókmennta.

Reykjavík 7. janúar 2017

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Laun þingmanna og ráðherra

Við síðustu ákvörðun kjararáðs varðandi hækkun á launum þingmanna og ráðherra langt umfram alla þróun í kjaramálum í landinu og út fyrir alla skynsemi urðu mjög skörp viðbrögð í þjóðfélaginu. Fjöldi mótmæla voru birt og neikvætt álit landsmanna gegn umræddum launahækkunum.

Fjöldi manna gerði sér vonir um að nýkjörið þing myndi taka á þessu máli og afnema hækkunina til að koma í veg fyrir öngþveiti á vinnumarkaði á nýbyrjuðu ári.

Hinir nýkjörnu þingmenn sáu ekki sóma sinn í að taka á málum með lagasetningu eins og vonast var til en fóru heim sælir og ánægðir með sín ofurlaun ákveðnir í að sitja sem fastast og halda í illa fenginn auð.

Staðan í þjóðmálum er því orðin sú að við endurskoðun ákvæða kjarasamninga á næstu mánuðum verður að beinast að því að hækkanir launa almennt verði ekki minni en það sem þingmenn og ráðherrar fengu á gulldiski.

Verður fróðlegt að sjá hvernig forystumenn stéttarfélaga bregðist við og vinna að þeim breytingum sem nauðsynlegar eru. Verkföll og aðrar álíka aðgerðir til að knýja fram breytingar verða nauðsynlegar til að brjóta á bak aftur þessa sjálftöku þingmanna og ráðherra á launum úr sameiginlegum sjóði landsmanna.

Sem dæmi um afleiðingar þessarar afgreiðslu Kjararáðs, án allrar skynsemi, þá er ein tekjuleið stjórnvalda til að hafa upp í kostnaðinn við launahækkanirnar að skerða greiðslur til eftirlaunaþega. Er staðan sem upp er komin við þær breytingar þingmanna á lögum er gerðar voru á síðasta ári og varða greiðslur til eftirlaunaþega að um áramótin þá lækkuðu greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins til sumra þegna landsins um 60,5%. Greiðsla fyrir desember lækkað 1. janúar 2017 um 60,5%. Eru þingmenn með því að sýna landsmönnum hverjir hafa völdin og landsmenn eigi bara að þakka fyrir meðan þeir fái eitthvað.

Landsmenn skulu gera sér ljóst að þetta er í anda þeirra reynslulausu ungmenna sem komust inn á þing við síðustu kosningar. Unglingarnir eru með þessu að sýna visku sína og gáfur er íslenskt stjórnarfar kemur til með að búa við næst árin.

Næstu stjórnarár á Íslandi munu einkennast af mistökum í lagsetningu eins og hér hefur átt sér stað ef ekki er um beinan ásetning þeirra aðila er verma stóla Alþingis. Aðila samfélagsins sem skila minnsta vinnuframlagi til þjóðarbúsins sé tekið mið af fjölda daga sem þing er starfandi. Þær afsakanir sem heyrst hafa að þingmenn starfi þótt sjálft þingið sé ekki starfandi sem slíkt er hreinn fyrirsláttur.

Verkefni hins almenna borgara á íslandi næstu mánuði er að koma böndum á fingralangt sjálftökulið sem situr á Alþingi. Lög um Kjararáð eru sett af Alþingi og sniðin að því sem gerst hefur nema Kjararáð (skipaðir meðlimir ráðsins) hafi farið út fyrir starfsvið sitt og með því brotið lög.

Hér með eru allir eldri borgarar hvattir til að láta í sér heyra sjálfir eða með aðstoð aðstandenda sinna til að stöðva sjálftökuliðið á Alþingi sem stefnir á að setja fjárhag landsins í rústir ef þörf reynist á að fara út í grimmt allsherjarverkfall til að hindra slíkt gerræði sem átt hefur sér stað í launamálum þingmanna.

Reykjavík 7. janúar 2017

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Ballarhaf

Orðið ballarhaf er farið að heyrast í fjölmiðlum og sjást í ritverkum án þess að flytjendur boðskaparins hafi hugmynd um hvað eða hvar þetta svokallaða ballarhaf er.

Fyrir tuttugu árum síðan var fagurt fljóð í hópi fréttamanna sjónvarpsins sem viðhafði þetta orð í frétt án þess að vita hvað hún sagði. Var henni send skýring á því hvað hún hefði sagt með notkun á orðinu. Þessi fréttakona hefur ekki notað þetta orð síðan í fréttum svo vitað sé. Um svipað leyti varð veðurfræðingi það á að nota orðið ballarhaf við lestur veðurfrétta. Var þetta kona og hafði ég samband við hana í síma og sagði henni hvað þetta orð stæði fyrir. Þessi veðurfræðingur þakkaði mikið fyrir ábendinguna og sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir því hvað þetta orð stæði fyrir. Þriðja tilvikið varð í sölum Alþingis er einn kvenn-þingmaðurinn viðhafði þetta orð. Benti ég þingmanni sem ég var málkunnugur á þessa misnotkun þingkonunnar og varð hann mikið hrifinn að fá skýringuna á orðinu og sagðist koma því til skila við konuna. Konan var í andstæðum þingflokki við hann.

Notkun á þessu orði hefur aukist og einkum hjá menntamönnum að því er virðist. Í sjónvarpsþættinum –Atlantshafið-- viðhafði þulurinn þetta orð og mátti skilja á framsetningu þularins sem svo að allt Atlantshafið væri ballarhaf. Einn rithöfundur notar þetta í ævisögu er hann ritaði án þess að vita hvað hann var að segja frá með skrifum sínum.

Fleiri dæmi væri hægt að nefna um notkun orðsins í tímaritum og öðrum ritverkum án þess að viðkomandi hafi gert sér grein fyrir hvað hann var að tjá sig um.

Undirritaður heyrði þetta orð í fyrsta skipti árið 1949 í samræðum manna um borð í m.b. Guðmundi Þorláki RE-. Þar sem þetta haf hafði aldrei sést merkt inn á sjókort, sem undirritaður hafði skoðað vel og náðu frá Norður – Íshafi suður undir miðbaug, voru þeir sem umrætt orð hafði farið á milli spurðir að því hvar þetta haf væri og beðnir að sýna það á sjókorti.

Annar þeirra sagði þá: „ Þú mátt aldrei nota þetta orð í návist dömu því átt er við kynfæri konunnar“. Þar með lauk leit að þessu ballarhafi á sjó.

Orðið „ballarhaf“ er í íslensku máli í ætt við orðin ölkelda, unaðsbrunnur, læragjá og fleiri álíka heiti á sama fyrirbæri.

Svo sýndur sé fáránleikinn í misnotkun þessa orðs þá var fréttaþulan að segja frá staðsetningu um þúsund rúmlesta togara á hafi úti en hafsvæðið varð í frásögn konunnar að ballarhafi. Það hlýtur að vera útilokað að finna það ballarhaf sem rúmar þúsund rúmlesta togara. Í annarri fáránlegri notkun á þessu orði viðhafði rithöfundur æviminninga merkinguna í kulda og vosbúð úti í ballarhafi. Orðrétt eftir rithöfundi haft: ((„oft kalt í veðri út í miðju ballarhafi“)). Varla er um mikinn kulda að ræða í slíkum ástarleikjum.

Verður það að teljast fáránlegt að halda því fram að menn séu í kulda og vosbúð á milli læra konu og því síður að þar rúmist þúsund rúmlesta togari.

Sem framhald á skýringum á merkingu orðsins ballarhafs fékk undirritaður að heyra eftirfarandi:

Í ballarhafi böllur lék

buslaði, svamlaði, brundaði.

............................

Þar með var óþarfi að leita frekar að hinu framandi hafsvæði í sjókortum.

Sett fram í von um að vitringarnir noti orðið með réttri merkingu þess í framtíðinni.

Reykjavík 2. janúar 2017

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Nútíma þrælahald

Sjónvarpsserían ROOTS sem sýnd er í íslenska sjónvarpinu og fjallar um meint fyrritíma þrælahald og meðferð þræla í Ameríku. Það er viðurkennt að hið svokallaða þrælahald var ómannúðleg meðferð á fólki sem féll undir það sem kallað var þrælar.

Það sem er sláandi við þann boðskap sem myndin sýnir er að þrældómurinn hefst við aðgerðir samlanda þeirra sem hnepptir eru í þrældóm. Er þar um að ræða einhvers konar ættar- eða hrepparíg innan ríkis þessa fólks með dökka hörund. Þeir selja samlanda sína til nauðungarvinnu til þeirra sem vildu greiða fyrir þá og virðist greiðslan hafa falist í vopnum til að geta haldið hremmingum á samlöndum sínum áfram.

Meðferð á hinum svokölluðu þrælum var í anda eignarréttarins að mega beita fólkið, þrælana, þeirri meðferð sem einkenndi geðástand hinna töldu eigenda. Myndin sýnir geðrænt ástand sumra þeirra sem höfðu eftirlit með þrælunum og hefur verið alvarleg geðveiki eða sadismi.

Í þessum þrælaboðskap kemur fram að almennt var ekki farið illa með þrælana nema að þeir sýndu einhverskonar mótþróa og var þá miskunnarlaust refsað sem hafði þann tilgang að vekja ótta og minnka líkur á frekari mótþróa.

Það sem einkennir frásagnir af hinu svokallaða þrælahaldi var að þrælar voru ódýrt vinnuafl. Þrælar fengu húsnæði, fæði og klæði á kostnað þrælahaldarana og virðist samkvæmt sögu að sumir þrælar sem þjónuðu húsbændum sínu vel hafi notið góðs af því þótt þeir hafi ekki notið hins opinbera frjálsræðis.

Talið er að þrælahald hafi verið afnumið með því að gefa þrælum svokallað frelsi og við það hafi ástandið í mannúðarmálum batnað. Ef grannt er skoðað er ástand þeirra sem taldir eru minna mega sín í nútíma samfélagi lítið skárra, ef ekki verra, en þeirra sem taldir voru eign vinnuveitenda sinna.

Hið svokallaða afnám þrælahalds á ekki að öllu leyti rót sína að rekja til mannúðar eða mannkærleika eins og margir halda í dag. Afnám þrælahalds er afleiðing af iðnvæðingunni. Með afnám þrælahalds og tilkomu véla og þeim hraða er fylgdi vélvæðingunni kom gróðinn til fjármagnseigenda betur til skila með því að vera lausir við aðhald og eftirlit með vinnuaflinu og skera þann kostnað niður er fólst í húsnæði, fæði og fatnaði þrælanna en greiða fólkinu lúsarlaun svo það rétt skrimti.

Á þrælahaldstímanum var þræll seldur ef hans vinnuframlag var ekki talið fullnægjandi eða þrælahaldaranum mislíkaði við hann. Í dag er nútímaþrælahald þannig að starfsmaðurinn er rekinn úr starfi ef vinnuveitanda líkar ekki við starfsmanninn og þar með vinnuöryggi takmarkað, fjárhagsleg afkoma starfsmannsins brotin niður. Nútíma þrælahaldarar hafa engar skyldur gagnvart launþegum nema að greiða þeim lúsarlaun.

Sú eina breyting sem orðið hefur á þrælahaldi er að nútímaþrælahald er byggt á svokölluðum stjórnendum landsins, Alþingi og ríkisstjórn, með aðstoð fjármagnseigenda. Þrátt fyrir að verkalýðsfélög hafi orðið til í þeim tilgangi að bæta kjör þræla nútímans er í grundvallaratriðum lítil breyting á fjárhagslegri afkomu nútíma þræla í hlutfalli við afkomu nútíma þrælahaldara.

Mismunur á launum nútíma þræla og fortíðar þræla í hlutfalli við ofurlaun valdastéttarinnar hefur lítið breyst nema til aukins gróða hjá þrælahöldurunum með aukinni afkastagetu er vélvæðingin hefur leitt af sér. Fjárhagsafkoma nútíma þrælahaldara er ekki lakari ef ekki betri en forvera þeirra á tímum viðurkennds þrælahalds. Ofurgróði nútíma þrælahaldara er slíkur að líkja má við sjúklegu andlegu ástandi þrælahaldaranna hvað varðar sókn í meiri gróða er felst í auðsöfnun eins og fyrri tíma valdagræðgi er fólst í landvinningum.

Á Íslandi hefur barátta almennings til bættra kjara verið miskunnarlaust brotin niður af stjórnendum landsins (Alþingi og ríkisstjórn) sem hafa verið þjónar auðvaldsins. Verkföll hafa verið bönnuð með lögum af Alþingi til að þóknast fjármagnseigendum en hafi verkalýðnum tekist að knýja fram launahækkanir hafa þær verið gerðar að engu með gengisfellingum til að hindra rýrnun á ofurgróðasjóðum fjármagnseigenda.

Af hálfu stjórnvalda og ofurgróðaeigenda hefur verið reynt að hafa hemil á svokallaðri millistétt þjóðfélagsins með því að halda þeim réttu megin við núllið til þess að nýta atkvæði þeirra til áframhaldandi setu á valdastólum. Þeim hluta þegnanna sem ekki falla undir auðvaldið og millistéttina er haldið á sultarlaunum í krafti valds atkvæðanna svo að ofurgróðasjóðirnir í eigu auðvaldsins haldi áfram að stækka.

Hjá stjórnendum landsins er litið á það með velþóknun þegar sárafáir eigendur fyrirtækja veita sjálfum sér bónusgreiðslur upp á milljarða sem kallaðar eru arðgreiðslur þótt umræddar tekjur hafi komið frá eign þjóðarinnar sbr. gróði útgerðafyrirtækja o.fl. Þeir sem sitja við stjórnvölinn, Alþingi og ríkisstjórn, huga vel að eigin afkomu þótt hluti þjóðarinnar búi við skert lífsgæði svo sem hungur og skort á læknishjálp. Eigin afkoma Alþingismanna er í forgangi hjá þeim sem verma stóla Alþingis eins og viðhorfið til síðustu launahækkana þingmanna sýnir. Stólar sem voru keyptir undir þingmennina með framlögum í kosningarsjóði þingmanna af auðmönnum landsins til þess að þeir, auðmennirnir, geti haft hemil á hvernig samskiptareglum þegnanna, lögunum, verði háttað í þeim tilgangi einum að auka gróða þeirra sjálfra, auðmannanna.

Eðli mannskepnunnar hefur ekkert breyst frá fyrri öldum hvað varðar græðgi í auð og völd.

Reykjavík 2. janúar 2017

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Laun þingmanna og ráðherra.

Eftir úrskurð kjararáðs varðandi launahækkun þingmanna og ráðherra hófst mikil ólga í íslensku samfélagi. Var þess krafist að hækkanirnar yrðu dregnar til baka og átti að höfða til skynsemi nýkjörinna þingmanna í þeim efnum.

Eftir kosningar og setningu þingsins hefur ekkert heyrst af af því máli er varðar ofurlaun þingmanna og ráðherra þar til frétt birtist í Fréttablaðinu 28. desember varðandi málið.

Kemur þar skýrt fram hvert eðli hinna nýkjörnu þingmanna (afæta íslensks samfélags) er í afstöðu til kröfu almennings um afturköllun á umræddri launahækkun. Samkvæmt fréttinni er enginn vilji á meðal þingmanna til að skerða ofurlaun sín. Er þar komið innsta eðli afæta í íslensku samfélagi sem skammta sjálfum sér laun sem orsakar skerðingu á lífsafkomu annarra landsmanna.

Rétt þykir að benda á að oft koma fréttir af litlu eða engu trausti á þingmönnum og fleiri aðilum í opinberum störfum svo sem dómurum. Hið litla álit Íslendinga á störfum þessara aðila (þingmanna, ráðherra og réttarkerfisins) nálgast oftar fyrirlitningu á þessum aðilum vegna framferðis þeirra í þágu eigin hagsmuna á kostnað almennings. Það er Alþingi sem setur lögin um afgreiðslu Kjararáðs og orðanna hljóðan í lögum um starfsemi Kjararáðs er sniðið að græðgi og ósvífni þeirra sem stjórna lagasetningunni, Alþingismönnum/konum.

Á undanförnum áratugum hefur nokkrum sinnum komið til árekstra á íslenskum vinnumarkaði vegna þeirrar ósvífni er fram hefur komið í úrskurðum Kjaradóms / Kjararáðs ((ath. það er skipt um heiti á þessu illþýði eftir þörfum sem falið er að ákvarða laun ákveðinna starfsmanna ríkisins til að villa um fyrir almenningi)) að taka aldrei tillit til þróunar í launamálum almennings. Er tímabært að almenningur fái upplýsingar um kostnað við þetta fyrirbæri sem kallað hefur verið Kjaradómur eða Kjararáð og greiðslur til hvers einstaklings sem skipaðir hafa verið í þessi embætti. Samkvæmt upplýsingum fá þeir aðilar er skipa þessar stöður ofurlaun miðað við laun hins almenna borgara. Þar af leiðandi þurfi hinir skipuðu aðilar að vinna fyrir ofurlaunum sínum með því veita þeim sem skipa þá í starfið einnig ofurlaun langt umfram alla skynsemi.

Samkvæmt fréttinni í Fréttablaðinu er enginn vilji innan þingsins til að hrófla við úrskurði Kjaradóms því þingmenn vilja halda í hinn illa fengna kaupauka sem úrskurður Kjaradóms færði þeim á gull-platta. Illa fenginn kaupauka sem líkja má við hreinan þjófnað úr sjóði almennings. Framferði þetta er í ætt við dæmisöguna um mýsnar sem fengu apa til að skipta ostbita er músunum hafði áskotnast. Apinn át allan ostinn eins og afætur á Íslandi gera með framferði sínu í umræddu launamáli.

Nú er eina ráðið fyrir hinn almenna launþega að stefna af hörku í alvarlega kjaradeilu á vinnumarkaðnum sem ætti að leiða til þess að upphefja ósvífni Kjaradóms í launahækkunum þingmanna og ráðherra og knýja á um að í framtíðinni verði fulltrúar launþega sem skipi umrætt Kjararáð en ekki fósar og vinir þingmanna.

Gera má ráð fyrir því að hinir gráðugu þingmenn drífi í að ná saman ríkisstjórn til þess að minnka líkur á nýjum kosningum á næstu mánuðum sem vafalítið myndi leiða til þess að mörgum þeirra sem nú verma stóla Alþingis verði sparkað út vegna hinnar meintu græðgi þeirra og að hunsa vilja almennings til að launahækkanir ofurlaunanna verði afturkallaðar. Miðað við fréttir af stjórnarmyndunarviðræðum síðustu vikna er það aðeins ótti þingmanna við að verða sparkað af þingi sem ræður úrslitum um skipun nýrrar ríkisstjórnar eða kosningar.

Reykjavík 28. desember 2016

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband