Hækkun tryggingaiðgjalda.

Hafinn er áróður af hálfu tryggingafélaga um þörf á hækkun tryggingaiðgjalda.

Er þar hafin ein ósvífnin enn af hálfu eigenda gróðafyrirtækja í eigu íslenskra peningamanna. Flestir Íslendingar muna eftir ólgunni sem varð í íslensku samfélagi þegar ákveðið var af hálfu stjórnenda tryggingafélaga að greiða til hluthafa hundruð milljóna í svokallaða arðgreiðslu. Þá var ekki skortur á fé eða hallarekstur á tryggingastarfsemi.

Ástandið í málum sumra Íslendinga er stunda þjónustu, viðskipti eða aðra atvinnustarfsemi er orðið slíkt að þessir aðilar sjá ekkert annað en okurgróða í sinni starfsemi. Skynsemi er ekki til í þeirra orðabókum.

Meinsemdin hvað varðar tryggingar í íslensku samfélagi er fjöldi tryggingafélaga. Fjöldi Íslendinga sem hafa þörf fyrir tryggingar er ekki meiri en það að eitt tryggingafélag væri nóg. Slíkt tryggingafélag ætti að vera í eigu ríkisins, þ.e. landsmanna, og rekstur þess að miðast við að lágmarka iðgjöldin sem landsmenn þurfi að greiða en ekki gróðapungasjónarmið sem allt miðast við að græða sem mest á samborgurum sínum.

Þar sem svokölluð tölfræði er stundum látin ráða í starfsemi tryggingafélaga á Íslandi er rétt að hugleiða fjölda tryggingafélaga hér á landi í samanburði við land með 200.000.000 íbúum. Í slíku landi ættu samkvæmt tölfræðinni að vera 2500 tryggingafélög.

Talsmenn frjálsrar samkeppni í rekstri fyrirtækja eru í hópi gróðapunganna og eru með dollara-merkið í augunum og sjá ekkert annað.

Eðlileg greiðsla til fólks fyrir framlag sitt til samfélagsins er eðlileg en okur og ofsagróði sem sumir einstaklingar krefjast getur ekki talist eðlilegt. Því er framferði stjórnenda tryggingafélaga varðandi óeðlilegar arðgreiðslur en á sama tíma krefjast hærri iðgjalda ekki ásættanlegt framferði. Tryggingafélögin fengu á sínum tíma hinar svokölluðu lögboðnu skyldutryggingar á grundvelli hinnar frjálsu samkeppni.

Samkvæmt frásögnum þeirra sem telja sig hafa þekkingu á tryggingum þá sé ekki um neina samkeppni á markaðnum að ræða heldur sé um samráð á milli aðila um að halda uppi verði á iðgjaldagreiðslum. Það gefur nægt tilefni fyrir ríkisvaldið til að stofna ríkistryggingafélag sem hafi það að markmiði að miða iðgjöldin við raunkostnað vegna trygginga en miðist ekki við kröfu gróðapunga um ofsagróða.

Reykjavík 7. september 2016

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri

 


Opinbert rán

Eftir hrun bankakerfisins kom í ljós að af hálfu stjórnenda og starfsmanna aflagðra banka þá hafi skipulega verið unnið að ólöglegum aðgerðum til þess að ná fjármagni landsmanna til hagsbóta fyrir ráðamenn bankanna.

Við hið meinta fall bankanna var skipulega gengið í það að hirða af fólki eigur þeirra sem áttu í viðskiptum við bankana og skulduðu. Má þar nefna mörg dæmi um svívirðilega aðför að viðskiptavinum bankanna og hvarfi fjármagns í vörslu banka. Sem dæmi um þá svívirðingu sem átti sér stað var hvarf margra milljarða króna úr söfnunarsjóðum lífeyrissjóða í vörslu Landsbankans. Er þar m.a. um að ræða lán til stjórnarformanns bankans úr lífeyrissjóðum án nokkurra trygginga en síðan lýsti hann sig gjaldþrota eftir að hafa komið umræddu fjármagni í skjól þangað sem ekki er hægt að ná því af hálfu þeirra sem eiga féð.

Eftir skrípaleikinn sem leikinn hefur verið af stjórnvöldum varðandi það sem kallað hefur verið ólöglegt athæfi í aðdraganda bankahrunsins með tilheyrandi sjóðþurrð vegna innanhúss bankaráns kemur fram hið innra eðli aðila. Er hér átt við alla bankana.

Þrátt fyrir gjaldþrot bankanna, að því er logið var að íslenskum þegnum í þeim tilgangi að fá tíma til að fela fjármagnið sem tekið var óheiðarlega, hefur komið í ljós að hið svokallaða eignarhaldsfélag LBI hefur falið umtalsverða fjárhæð. Fjármagn þetta (falda fjárhæðin) sem nota á, nú átta árum eftir bankahrun, til að greiða svokallaðan kaupauka (bónus).

Á meðan eigendur þeirra lífeyrissjóða sem stjórnað var af starfsmönnum Landsbankans fá ekki greiddar bætur fyrir það fjármagn sem hvarf úr sjóðunum er um að ræða beinan þjófnað af hálfu aðila er stjórna fyrirtækinu. Fyrirtækið var rekið í gjaldþrot en hefur falið fjármagn til þess að greiða útvöldum svokallaða bónusa (kaupauka) fyrir vel unnin störf. Samkvæmt fréttum má skilja það að verðmæti (fasteignir og fyrirtæki) sem hirt var af eigendum við banka-gjaldþrot, sem verðlausar eignir, hafi síðan verið seldar með miklum hagnaði til þess að breiða yfir hið ólöglega athæfi við bankaránið.

Umrætt fjármagn sem nota á til að greiða sem bónusa er fengið með ólöglegri eignaupptöku af hálfu lánastofnunar sem sagt er að hafi orðið gjaldþrota. M.ö.o. fjármagnið sem nota á til bónusgreiðslna var tekið, ófrjálsri hendi, frá eigendum verðmætanna. Ekki hafa verið greiddar þær fjárhæðir sem töpuðust við óstjórn í rekstri bankans sbr. lífeyrissjóðina.

Ef þessar aðgerðir við greiðslu kaupauka (bónusa) til lykilstarfsmanna gjaldþrota lánastofnunar ná fram að ganga án afskipta stjórnvalda og endurgreiðslu til lífeyrissjóðanna þá eru stjórnendur landsins samsekir í bankaráninu og þar með taldir þingmenn vegna mistaka við lagasetningu.

Umrætt bónus-greiðslu-fjármagn á skilyrðislaust að ganga til lífeyrissjóðanna og annarra sem urðu fyrir skaða af hálfu hins svokallaða sjálftökuliðs bankans.

Sú svívirða sem átt hefur sér stað af hálfu þessa sjálftökuliðs bankans má nefna skerðingu á lífeyrisgreiðslu til sjóðfélaga lífeyrissjóða í vörslu bankans sem nam um 40 %.

Því má velta fyrir sér hver var tilgangur stjórnarformanns bankans við að þvinga vörslu fjármagns Lífeyrissjóðs H.F. Eimskipafélags Íslands (fyrirtækisins sem var aflagt 2006 að boði stjórnarformannsins) frá fyrri vörsluaðila til Landsbankans því hann þóttist eiga lífeyrissjóðinn sem alfarið var í eigu sjóðfélaga. Stjórnarformaðurinn átti H.F. Eimskipafélag Íslands og lagði það fyrirtæki niður. Við afskráningu fyrirtækisins sagði hann sjálfkrafa upp samkomulagi frá 1957 (við stofnun lífeyrissjóðsins) varðandi skipan á stjórn sjóðsins.

Við afskráningu fyrirtækisins 2006 féll umrætt samkomulag um stjórn sjóðsins úr gildi. Valdníðsla stjórnarformannsins við notkun þriggja af fimm stjórnenda sjóðsins er hann skipaði sjálfur til flutnings á fjármagninu, sem var í eigu lífeyrissjóðsins (greiðenda í lífeyrissjóðinn (atvinnurekendur hafa aldrei greit neitt í lífeyrissjóði)), til Landsbankans kemur fram í því að fá sjálfur lán, samkvæmt eigin skipun, frá lífeyrissjóðnum án nokkurra trygginga fyrir láninu.

Reykjavík 5. september 2016

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Forysta dómarafélagsins.

Upphlaup hjá forystu dómarafélagsins vegna innanríkismála í Tyrklandi, þar sem krafist er afskipta íslenskrar ríkisstjórnar af málefnum Tyrklands, er all undarleg þegar stundaður er skipulagður mannrétttindaþjófnaður á íslenskum þegnum af hálfu íslenskra dómara við uppkvaðningu dóma.

Íslenskum dómurum væri nær að uppræta og koma í veg fyrir lögbrot íslenskra dómara við dómsuppsögu.

Þegar fyrir hendi er fjöldi mála með skriflegum sönnunargögnum um þá lögleysu sem viðgengst innan dómskerfisins á Íslandi við uppkvaðningu dóma á grundvelli falsaðra gagna og falsaðra bókana í gerðarbækur dómstóla ættu dómarar á Íslandi að byrja á því að líta á eigin misgjörðir (lögbrot) áður en þeir krefjast afskipta íslenskra stjórnvalda af gjörðum stjórnvalda (innanríkismála) annarra ríkja.

Er þetta frumhlaup íslenskra dómara sett fram til að breiða yfir lögleysu og lögbrot sem fram fer fyrir íslenskum dómstólum.

Upphlaup þetta af hálfu íslenskra dómara vegna aðgerða sem fram fer í erlendu ríki gæti verið vegna þess að þeir, íslenskir dómarar, vilji ekki að upplýst verði um sambærileg mannréttindabrot af hálfu dómara í hinu erlenda ríki og þeim mannréttindabrotum er þeir (íslenskir dómarar) framkvæma í löglausri framkvæmd við dómsúrskurði á Íslandi.

Er ástæða fyrir íslenska dómara að huga að leiðréttingu á mannréttindabrotum sem framin eru á Íslandi af hálfu dómara áður en þeir krefjast afskipta íslenskra stjórnvalda af innanríkismálum erlendra ríkja.

Umrædd afskiptasemi íslenskra dómar er í anda þeirra manna (karla og kvenna) sem líta á sjálfa sig sem guðlegar, óskeikular verur sem allt leyfist, jafnvel glæpir.

Reykjavík 31. ágúst 2016

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Lög og ólög.

Upp er komin sú staða í íslensku þjóðlífi að viðurkennt er að lög sem samþykkt voru af alþingismönnum (konum og körlum) eru túlkuð á allt annan veg en alþingismenn ætluðust til.

Ástæða þess er að þeir, alþingismenn, gerðu sér ekki grein fyrir hvað þeir voru að samþykkja sem samskiptareglur (lög) þegna í íslensku samfélagi.

Þessi yfirsjón er vanvirðing við þegnana, fljótfærni vegna vanþekkingar á því hvað lög eru og vísbending um vanhæfi á starfsemi sem einkennist af atkvæðaveiðum þingmanna undir sjónvarpsmyndavélum. Þetta er vegna áhuga þingmanna á að reyna að sverta (kasta skít ) hver í annan með umræðum á þingfundum um allt annað en það sem varðar lögin sjálf. Í umræðum á Alþingi, eftir að hafið var að sjónvarpa frá þingfundum, hafa fundir einkennst af því sem kallað er á íslensku skítkast. Er það að hreyta ókvæðisorðum til að lítilsvirða pólitíska andstæðinga. Er þetta einkenni á öllum þingmönnum sem hafa farið í ræðustól, þótt mismikið sé eftir þingmönnum.

Eitt af verkum Alþingismanna er að hafa eftirlit með framkvæmd laga á öllum sviðum stjórnsýslu, þ.e. framkvæmdavalds og dómsvalds. Bæði þessi svið stjórnsýslunnar eru skyldug til þess að fara eftir settum lögum af Alþingi. Því miður er mikil óreiða á framkvæmd þessara stjórnsýslukerfa, framkvæmdavalds og dómsvalds. Komast starfsmenn þessara stjórnsýslu embætta upp með það að vanvirða (svívirða) sett lög í landinu og þar með grundvallarlögin (stjórnarskrána).

Svo virðist sem skipulega sé unnið að því innan þessara stjórnsýslukerfa að fara á svig við lögin (brjóta lögin) þegar það hentar og þjónar hagsmunum lögbrjóta í æðri störfum sem starfa hjá því sem kallað er ríkið (því opinbera).

Til aðstoðar stjórnvalda og dómskerfisins eru notuð embætti Ríkissaksóknara og lögreglunnar til að hylma yfir kærur um lögbrot (glæpi) sem framin eru af fólki í störfum sem kölluð eru æðri störf. Ef skoðuð eru bréf sem farið hafa á milli kærenda og embættis Ríkissaksóknara svo og lögreglu sést greinilega hverskonar skúringadeildir þarna er um að ræða. Þessi embætti lögreglan og Ríkissaksóknari hafa það að aðalstarfi að hreinsa til og hindra allar kærur sem beinast að lögbrotum þeirra sem taldir eru æðstu menn ríkisins.

Sem dæmi um GESTAPO-vinnubrögð lögreglu og Ríkissaksóknara var hunsað af stjórnendum þessara embætta að láta rannsaka kærur um þjófnað af bankareikningum þrátt fyrir að skriflega liggi fyrir í lögregluskýrslu að fyrirmæli um þessar aðgerðir (þjófnað) hafi komið frá ráðherra. Því var sleppt úr lögregluskýrslunni hvort það var ráðherra Samgöngumála eða ráðherra Fjármála sem fyrirskipaði hinn umrædda þjófnað með aðstoð bankakerfisins. Yfirhylmingalið lögreglunnar neitaði í marga mánuði að láta af hendi afrit af umræddri lögregluskýrslu vegna þess að hún var meiðandi fyrir stjórnsýsluna þar sem ráðherra fyrirskipaði þjófnað.

Sambærilegar yfirhylmingar af hálfu embætta lögreglu og Ríkissaksóknara hafa verið viðhöfð varðandi kærur á hendur dómurum sem hafa verið nafngreindir og lagðar fram skriflegar sannanir fyrir lögbrotum kærðra aðila.

Þar sem viðhaft hefur verið orðið skríll um fólk sem hefur staðið í mótmælum við stjórnun landsins er rétt að nota það orð yfir þá sem kallaðir hafa verið stjórnendur og dómarar og kærðir hafa verið.

Fréttamenn (fjölmiðlamenn (karlar og konur)) virðast þiggja mútur og/eða vera bannað að fjalla um brot í opinberu starfi því ekki hefur af þeirra hálfu fengist aðgangur að fjölmiðlum til að koma að fréttum af þeim mannréttindabrotum sem eru skipulega framkvæmd af æðstu stjórnendum framkvæmdavalds og dómsvalds.

Af hálfu opinberra aðila sem neitað hafa rannsókn málanna hefur verið bent á að hægt væri að fara í einkamál við hin ákærðu. Persóna með miðlungsgáfur sér það strax að ef slík mál eru látin í hendur lögbrjótanna til að dæma í þá yrði notuð sama lögbrotsaðferðin og viðgengst hjá úrskurðaraðilum.

Upplýsingar um lögbrot sem hér er getið um og framin af æðstu starfsmönnum ríkisins yrði slík hneisa fyrir ríkisvaldið að allt er gert til að þagga þau niður og eru að öllum líkindum mútur notaðar til þöggunar.

Það er einkenni á mannskepnunni, dýrinu sem kallað er maður, að svo lengi sem óþægindin, lögbrotin, ekki snerta hagsmuni (hugmyndafræðina, pólitík) persónunnar eða þeirra nánustu þá forðast aðilar að hafa afskipti af málinu og telja það aðeins vandamál annarra. Þetta er orsök þess að persónur sem komast í valdamikil embætti ríkisbáknsins geta án áhættu farið á snið við samskiptareglur (lögin) þar sem aðrir innan stjórnsýslunnar, sem eiga að hafa eftirlit með framkvæmd laga, hafa komið auga á möguleika á eigin ávinningi með því að sniðganga lögin. Þetta er kallað hagsmunavarsla eða samtrygging hagsmunaaðila stjórnsýslunnar.

Þetta gera þeir í trausti þess að ef þeir gera ekkert gagnvart lögbrotum samstarfsmanna sinna þá verður ekkert hróflað við þeirra eigin lögbrotum. Er þetta einn liðurinn í setningu laga frá Alþingi, sem hægt er að túlka að eigin geðþótta, til þess að auðvelda það sem kallað er lögleg-lögbrot.

Hin löglegu-lögbrot og yfirhylmingarstefna, eftirlitsaðila sem eiga að hafa eftirlit með framkvæmd laga, er einn liður í þeirri eiginhagsmunapólitík sem einkennir stjórnendur landsmála á Íslandi. Þessi eiginhagsmunapólitík stjórnenda hefur í gegnum aldirnar verið orsök óeirða og uppreisna almennings gegn græðgi valdhafanna sem leitt hefur til blóðsúthellinga svo langt aftur sem sögur herma. Má þar nefna sögu Olivers Crownwells, rússnesku byltinguna 1917 og frönsku byltinguna er leiddi til afhöfðunar ráðamanna í Frakklandi auk fleiri sambærilegra atvika mannkynssögunnar.

Í fyrstu var farið friðsamlega fram á að valdhafarnir létu af kúgun þegnanna samanber Búsáhaldabyltingu Íslendinga. Ef ekki er farið eftir gildandi lögum af hálfu stjórnvalda vegna eiginhagsmuna og græðgi stjórnenda landsins leiðir það til meiri hörku til þess að knýja fram þá framkvæmd laga að allir þegnar landsins þurfi að lúta sama skilningi og sömu túlkunar á gildi laga (framkvæmdar laga). Það verði ekki liðið að stjórnendur eins og ráðherrar geti fyrirskipað þjófnað, menn í stjórnunarstöðum ríkisins (konur, karlar) geti falsað skjöl eða notað fölsuð skjöl sér til framdráttar eða þjónar réttarkerfisins (dómarar) komist upp með það að nota lögin til refsiaðgerða í einkaþágu þegar þeim mislíkar að geta ekki kúgað málsaðila (þegnana) á annan hátt. M.ö.o. að dómarar nota lögin sér til hagsbóta með utan-laga-dómum sem kalla má lögleg-lögbrot.

Væri þingmönnum Alþingis Íslendinga nær að snúa sér að því að samþykkja lög sem standast stjórnaskrá og réttarvitund þjóðarinnar en standa í stöðugu skítkasti (niðrandi umsögn um starfshætti pólitískra andstæðinga). Samþykkja lög sem hægt er að fara eftir en ekki hægt að túlka eftir eigin geðþótta og hagsmunum valdastéttarinnar og þar með stjórnenda landsins. Alþingismönnum væri nær að sína það í verki að þeir skili þeirri vinnu sem ætlast er til að þeir skili og skili þeim vinnutíma sem telst vera eðlilegur vinnutími í íslensku samfélagi.

Samkvæmt myndum sem birtar hafa verið af þingfundum Alþingis er ekki hægt að sjá að þingmenn skili eðlilegri vinnu. Stór hluti þingmanna er ekki viðstaddur þingfundi og hafa því enga eða takmarkaða vitneskju um hvað fram fer á þingfundum og samþykktir laga í samræmi við það. Af þeim myndum sem hægt er að sjá í sjónvarpi af þingfundum er ekki hægt að álíta það að þingmenn skili eðlilegri vinnu auk þess sem banna á atkvæðaveiða-sjónvarpsútsendingar frá þingfundum ef það gæti bætt samþykkt lög svo hægt væri að fara eftir þeim.

Ef eitthvað vit á að vera í þingfundum á að banna öll orðaskipti í þingsal sem ekki snúast beint um þann lagabálk sem er til umræðu hverju sinni og skylda alla þingmenn til að vera viðstadda á þingfundum. Banna á allt ósæmilegt orðaskak þingmanna er varðar orð og gjörðir pólitískra andstæðinga. Umræður á Alþingi eiga eingöngu að snúast um efni og orðalag þeirra laga sem til umræðu eru. Með því væri hugsanlegt að tilgangur lagasetningar væri betur úr garði gerður og hægt að fara eftir lögunum án atvinnubótavinnu dómara og lögmanna. Gera á þingmenn ábyrga fyrir óábyrgu orðavali í lögum sem túlka má á marga vegu.

Í von um afnám utanlagadóma og annarra lögbrota starfsmanna stjórnsýslunnar vegna hirðuleysis af hálfu hins þríhöfða valds, löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds.

Valdhöfum á að vera ljóst að tími bænaskjala frá fyrri tíð konungsvaldsins er liðinn og jafnrétti þegnanna gagnvart lögum er uppistaða í nútíma samfélagi.

Reykjavík 29. ágúst 2016

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Fæðingarorlof karríer-konunnar.

Fæðingarorlofsráðherrann hefur birt tillögur til breytinga á greiðslum til fólks eftir barnsburð. Er um að ræða allt að 60% hækkun frá núverandi greiðslum. Þetta telur ráðherrann vera smámuni fyrir ríkissjóð. Ráðherrann réttlætir þetta vegna fækkunar á árlegum fæðingum íslendinga.

Á sama tíma og ráðherrann telur möguleika á slíkri hækkun eru hunsaðar óskir eldra fólks um að fá hækkanir á lífeyri í samræmi við verðbólgu síðustu ára. Í atkvæðaveiðum ráðherrans er talið í lagi að skerða lífsgæði sjúklinga og eldra fólks því það sé hvort eð er á leið í moldina.

Ráðherrann, sem er kona, hefur ekki hugleitt það að fækkun á barneignum á Íslandi stafar af sérkennilegum hvötum karríerr-kvenna. Það er keppni kvenna í að telja sig vera jafningja karlanna í öllum störfum og þar af leiðandi telja þær sig ekki hafa tíma til að eignast börn. Starfið er meira spennandi en barnauppeldi. Karríer-hlutverkið er meira virði en viðhald mannkynsins. Hugsanlegt er að karríer-konur séu framsýnar og fækkun barneigna sé stefnumál þeirra í fækkun mannkyns eða eyðingu ef koma mætti í veg fyrir eyðingu alls lífs á jörðinni með aðgerðum skepnunnar sem kölluð er maður.

Í allri þessari baráttu karríer-kvenna hefur það gleymst að vinnuframlag karla hefur einkennst af því að vinna fyrir launum til að halda lífi í fjölskyldunni, konu og börnum, en ekki vegna spenningsins í starfinu. Hin svokallaða jafnréttisbarátta kvenna ber einkenni af afbrýðissemi.

Með framhaldi á afstöðu margra kvenna til barneign, kvenna sem hafa líffræðilega möguleika á að eignast börn með aðstoð karlsins, leiðir til þess er tíminn líður að mannkynið fjari út og nýtt afbrigði dýra taki við.

Svo virðist sem framlag Karríer-kvennráðherrans sé liður í karríer-keppni kvenna.

Á sama tíma og karríer-ráðherrann leggur fram sitt frumvarp er hunsað óskir um að sú kynslóð sem lagt hefur fram með elju sinni það velferðarþjóðfélag sem Ísland er fái sómasamlegt lifibrauð á síðustu árum ævi sinnar.

Ráðherranum vær nær að búa betur að eldri borgurum og sjúklingum. Ráðherrann hefur gleymt því að með óráðssíjunni og þjófnaði sem átti sér stað í bankakerfinu við hrunið var allt að 40% stolið af eigendum lífeyrissjóða í vörslu banka. Fjörutíuprósent skerðing á lífsafkomu stórs hóps íslenskra þegna við bankahrunið hefur ekki verið bætt af hálfu stjórnvalda þrátt fyrir tugmilljarða okur-hagnað bankakerfisins í eigu ríkisins.

Hefði stjórnvöldum verið í sjálfsvald sett að sjá til þess að bankarnir, með sínum okur-gróða, skiluðu því sem stolið var frá lífeyrissjóðunum í óráðssíju í starfi bankanna fyrir hrun.

Umræddur karríer-kvenn-ráðherra hefði átt að hugleiða það að vandamál ungs fólks hvað varðar leiguhúsnæði er fram kominn með apaskattinum á leigutekjur, svokallaður fjármagnstekjuskattur. Apaskatturinn fór beint í hækkun leiguverðs á húsnæði.

Fjármagnstekjuskatturinn er sambærilegur við þjófnað apans í hinni frægu sögu um mýsnar sem fengu apa til að skipta fyrir sig ostbita og mýsnar sátu síðan uppi án þess að fá neitt af ostinum.

Með vísan til viðhorfs karríers-kvenna til barneigna þá hafa margar karríer-konur, sem ekki hafa átt börn, vaknað upp við vondan draum þegar þær eru komnar af barneignaaldri að karríerinn hafi ekki skilað því eina sem er þess virði að lifa lífinu og þær því farið á mis við gæði lífsins. Sú vinna sem skila þarf til að fá lifibrauð er í flestum tilvikum unnin til að hafa ofan í sig og sína og í mörgum tilvikum leiðinleg nema hjá karríer-konum í jafnréttisbaráttunni.

Huga mætti að því að klónun mannsins taki við af lífi karríer-kvenna og þá er það ljóst að ekki verður klónað annað en kvennkynið.

Reykjavík 17. ágúst 2016

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Heilbrigði landsmanna.

Hafin er af hálfu starfsmanna heilbrigðiskerfisins barátta fyrir auknum skatti á sykraðar vörur. Er borið fyrir sig að sykurneysla sé skaðvænleg fyrir heilsu manna.

Það getur verið rétt að of mikil neysla (í óhófi) á sykri eða afurðum með íbættum sykri sé skaðleg en það er ekki í starfi heilbrigðisstarfsfólks að hafa afskipti af öllum gjörðum fólks ef það (heilbrigðisstarfsfólk) hefur aðra skoðun en hinn almenni borgari. Slík afskiptasemi gengur of langt inn á einkalíf fólks. Heilbrigðisstarfsfólki er heimilt að láta í ljós sínar skoðanir sem viðvaranir til almennings en hinn almenni þegn skal fá að ráða því hvaða lífsgæði hann velur sér.

Rétt þykir að benda á að áfengi, bjór, tóbak og önnur eiturlyf gera meiri skaða fyrir þjóðarbúið án þess að brugðist sé við því á viðunandi hátt. Þar af leiðandi er þessi afskiptasemi heilbrigðisstarfsfólks varðandi sykurneyslu landsmanna ekki ásættanleg og fellur undir grófa forræðishyggju starfsmanna. Það er óásættanlegt að skoðanir þessa starfsfólks eigi að hafa áhrif á líf allra einstaklinga. Þessir starfsmenn geta farið eftir sínum kenningum en eiga ekki að hafa vald til að þvinga aðra þegna inn á sínar skoðanir. Efni eins og hveiti, hnetur, glútín og fleiri efni eru hættuleg sumum persónum. Er því ekki næsta skref þessara heilbrigðisstarfsmanna að krefjast að skattar verði lagðir á eða hækkaðir á þessi efni.

Tjáningarfrelsi er talið til mannréttinda og hafa þessir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar fullan rétt á að tjá sínar skoðanir en eiga engan rétt til að knýja fram nýja skatta eða hærri skatta sem þjóni eingöngu kenningu eða skoðunum þeirra.

Ef afskipti heilbrigðisstarfsmanna af sykurneyslu landsmanna er réttlætanleg væri þessu fólki nær að knýja fram algjört bann við notkun alkahóls sem vímugjafa svo og tóbak og önnur eiturlyf. Þessi lyf sem falla undir eiturlyf gera meiri bölvun fyrir þjóðarbúið en sykurát nokkurra sælkera sem ekki vilja hlusta á leiðbeiningar þeirra sem telja sig vita betur en aðrir um skaðsemi sykurs.

Viðurkennt hefur verið að hvers konar efni hvort sem það er sykur eða önnur efni s.s. eiturlyf hafa mismunandi áhrif á fólk þar sem sumir einstaklingar þola vel en aðrir illa. Ef þessi forræðishyggja heilbrigðisstarfsmanna á að vera ráðandi þá endar það með að öll efni sem hafa slæm áhrif á heilsufar nokkurra einstaklinga verða bönnuð eða skattlögð til að skapa nýja tekjustofna fyrir ríkið en þeir einstaklingar sem ekki þola efnin verða ekki gerðir ábyrgir fyrir eigin velferð með því að forðast þau efni sem þeir ekki þola.

Þessi forræðishyggja sem þarna er á ferðinni endar með því að þeir sem gera tilraun til sjálfsvígs en mistekst verða dæmdir til dauða eins og sagt er að heimild sé til í ákveðnum ríkjum.

Viðvaranir og fræðsla um það sem má betur fara er vel þegið, en skerðingu á vilja og gjörðum einstaklinga á aldrei að hefta svo lengi sem gjörðir þeirra ganga ekki inn á rétt annarra einstaklinga eða samfélagsins. Það er ekki réttur samfélagsins að skipta sér af einkamálum borgaranna. Réttur samfélagsins nær aðeins til þess að setja samskiptareglur borgaranna innbyrðis en ekki til afskipta af einkamálum þeirra.

Sá einstaklingur sem ekki getur hagað sér innan ramma laga (samskiptareglna þegnanna) eftir notkun eiturlyfja, áfengis eða annarra efna, verður sjálfur að taka afleiðingum gjörða sinna en gjörðir hans (einstaklingsins) eiga ekki að bitna á öllum þegnum samfélagsins í skerðingu á mannréttindum.

Reykjavík 10. ágúst 2016

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Réttarkerfið og lögin

Í framhaldi af grein á blogginu undir heitinu Lög og reglur er rétt að benda ráðamönnum réttarkerfisins á flokk breskra sjónvarpsþátta sem fjalla um störf dómara við breskan dómstól.

Um er að ræða sjónvarpsþætti undir nafninu „Djudge John Deed“. Í þessum þáttum er tekið á vandamálum við rekstur mála fyrir dómi þegar peningamenn og mútuþægir dómarar vilja stjórna niðurstöðum í dómsmálum. Einnig er tekið á einkavinavæðingu þátta réttarkerfisins þegar vinir dómaranna fá einkavinaúrlausn í dómsmálum.

Þættir þessar gefa skýra vísbendingu um hvernig lögleysan fær útrás við mútugreiðslur, hótanir, líkamsmeiðingar og pólitíska fyrirgreiðslu til að þjóna tilteknum aðilum án tillits til gildandi laga. Allt gert til að þjóna þeim sem eiga peninga og þ.á.m. tryggja viðskiptasamninga við erlenda aðila þótt lagabókstafurinn sé sniðgengin og hunsaður.

Umræddir sjónvarpsþættir ættu að vera skyldu kennsluefni í lagadeild háskólanna ef með því væri hægt að fækka þeim tilvikum þegar dómarar og lögmenn lítilsvirða mannréttindi þegnanna og gildandi lög landsins.

Það ætti einnig að taka upp þann sið að við málarekstur fái dómarar aldrei að vita hverjir séu málsaðilar þar sem mörg dæmi eru um að niðurstöður í dómsmáli ráðast af óbeit eða hatri dómara á málsaðila. Niðurstöður sem eru ætlaðar sem hefnd gagnvart málsaðila þvert á gildandi lög og án tillits til anda laganna þ.e. orðanna hljóðan á lagatexta (samskiptareglum þegnanna).

Þeir þættir sem hér er getið um eiga rætur sínar í reynslu manna af réttarkerfinu (Bresku réttarkerfi) og sýna það að þeim sem treyst er til að úrskurða í ágreiningsmálum eru breyskir, mútuþægir eða láta stjórnast af hagsmunum aðila sem geta hyglað þeim á einhvern hátt s.s. með stöðuhækkun innan kerfisins.

Vafalaust munu margir telja þetta aðeins skáldskap það sem myndefnið fjallar um. Því miður er þetta raunveruleikinn í störfum réttarkerfisins eins og skýrt hefur komið fram við greinaskrif margra aðila. Það skiptir öllu máli við rekstur máls fyrir dómi að geta keypt sér niðurstöðu í dómsmáli með fjölda lögmanna sem hafa meiri orðaforða (orðskrúð) en lögmenn andstæðinganna. Niðurstöður í dómsmáli er ekki orðanna hljóðan lagabókstafarins heldur orðskrúð og sannfæringarkraftur lögmanna sem oft er andstætt gildandi lagabókstaf. Það eru ekki lögin sem gilda ef um er að ræða málsaðilana Jón öreiga eða séra Jón.

Í dómsuppsögu eiga ekki að koma fram einkarefsingar dómara vegna hefndaraðgerða hans gagnvart málsaðila. Þar sem málsaðilar stjórna ekki hver eða hvaða dómari fær mál til úrskurðar eiga dómarar aldrei að vita hverjir eru málsaðilar ef þeim með því tækist að framfylgja ákvæðum laga um að allir þegnar ríkisins séu jafnir fyrir lögunum og einkahefnigirni þeirra (dómaranna) fá ekki útrás í störfum þeirra. Einnig gæti það komið í veg fyrir einkagreiðasemi (hjálpsemi) dómara við vini og ættingja í málarekstri þegar þeir eru vanhæfir til starfa.

Að auki ætti að skylda dómara til að gefa skriflega afdráttarlausa og tæmandi skýringar á því á hverju (orðanna hljóðan laganna, (hvernig túlka ætti lagatexta)) þeir byggi niðurstöðu sína. Með því móti væri hugsanlega hægt að koma í veg fyrir að sérhver dómari hafi sína einkaskoðun á því hvernig túlka beri orðanna hljóðan laganna þegar það þjónar hagsmunum þeirra þ.e. dómaranna.

Reykjavík 27. júlí 2016

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Húðflúr – tattúvering

Sá framandi ósiður sem farinn er að koma fram sem tískufyrirbæri hjá fólki sem er sérstaklega ósátt við eigið útlit og kallaður er „tattú“.

Þetta afbrigði af þörfum mannskepnunnar til að sýnast vera eitthvað annað en viðkomandi persóna er. Fyrirbærið er talið ver mjög gamalt og eigi uppruna sinn hjá frumbyggjum Ástralíu eða Suð-austur Asíu. Fyrirbæri þetta að láta teikna á líkama sinn myndir af ýmsum fyrirbærum eða hugmyndum mannskepnunnar var hjá frumbyggjum nokkurs konar stöðutákn.

Þessi siður barst til Evrópu með sjómönnum fyrir einhverjum hundruðum ára. Fram í lok tuttugustu aldar var þetta fyrirbæri líkamsskreytinga mjög fátítt og sást í einstaka tilfellum á handleggjum sjómanna sem voru í siglingum til erlendra hafna. Þeir sjómenn sem leiddust út í þessa líkamsskreytingu sem kölluð hefur verið „tattú“ hafa flestir eða allir verið undir áhrifum áfengis, vel drukknir, þegar umrædd skreyting fór fram. Enginn af þeim sem undirritaður hefur spurt um ástand viðkomandi þegar tattú-myndin var sett á líkamann hefur viðurkennt að hafa verið allsgáður við þá aðgerð. Flestir hafa talið að viðkomandi hafi gert mistök við þessa aðgerð.

Yfirleitt voru þetta smáar myndir. Í seinni heimsstyrjöldinni notuðu Nazistar þessa aðferð til að merkja fanga því ekki er auðvelt að fjarlægja slíka merkingu. Það var einnig viðurkennt í heimsstyrjöldinni 1939-1945 í sambandi við þann hildarleik sem fram fór á höfunum að það hafi komið fyrir að eina kennileiti á líkum sem náðust eftir að skipum hafi verið sökkt var tattúmynd á útlim viðkomandi.

Þessi framandi líkamsskreytingar list hefur gengið yfir í Vestrænum-menningarríkjum eins og faraldur. Er þetta orðið einkenni á sumu fólki, körlum og konum, um það að viðkomandi persónur séu ósáttar við líkama sinn í upprunalegri mynd. Þessar persónur telja sig fá meiri athygli samborgara sinna með því að skreyta skrokkinn með afskræmingu er tattú veldur.

Fyrirbæri þetta hefur náð tangarhaldi í kvennréttindabaráttunni því konur eru í kappi við karlpeninginn í því að láta afskræma líkama sinn með tattúveringum. Margar fallegar stúlkur/konur sem hafa látið afskræma líkama sinn hafa fallið í fegurðarmati (gæðamati fegurðar) niður á botn fegurðarmatsins.

Í viðræðum við einn tattú-skreytingar-listamanninn sagði hann að það væri skemmtilegast þegar hann þyrfti að setja tattú-mynd á milli fóta kvenna. Í samræðum við skreytingarmanninn mátti skilja það svo að í nánast öllum tilvikum væri fólk ekki allsgáð þegar slíkar aðgerðir færu fram. Væri það áberandi að ástand vegna vímuefnanotkunar (áfengis eða annarra efna) væri í flestum tilfellum meðvirkandi hjá fólki við ákvarðanatöku.

Það virðist vera að það sé hræðsla – ótti fólks við að tjá sig um þessa afskræmingarlist. Og á þetta sérstaklega við um þegar fallegar stúlkur sem leiðast út í þann sýndarveruleika sem tattú er. Ung og falleg stúlka sem ég spurði út í litla tattú-mynd sem hún var með á hendi sagðist sjá mikið eftir að hafa látið gera þetta en hún hafi verið ásamt vinum sínum í samkvæmi þar sem vín var haft um hönd.

Hér með er skorað á samtök kvennréttinda sinna að taka ekki upp alla ósiði karlpeningsins í krafti jafnréttisbaráttu og þar með talin afskræming á líkama kvenna með tattú. Konur verða ekki álitlegri með afskræmingu á líkama sínum nema síður sé.

Rétt þykir að benda sérstaklega á þá hættu sem stafar af íþróttamönnum í landslið Íslands í knattspyrnu sem sumir hverjir eru afskræmdir á líkama með tattú. Þessi ófögnuður sem landsliðsmenn í knattspyrnu dreifa til ungu kynslóðarinnar á Íslandi má líkja við hryðjuverkastarfsemi þar sem þessir menn eiga að vera fyrirmyndir fyrir ungu kynslóðina. Ungt fólk er áhrifagjarnt og vill oft og tíðum líkjast átrúnaðargoðum og apa ósóman eftir þeim.

Væri stjórnendum íþróttahreyfingar á Íslandi nær að taka mál þetta til alvarlegrar íhugunar og banna þessum aðilum að klæðast, sem fulltrúar landsins, svo að afskræmingarmyndirnar sjáist. Klæðnaður þessara aðila eigi alltaf að vera í þá veru að afskræmingarnar, „tattúið“, séu huldar að öðrum kosti verði þeir ekki fulltrúar landsins.

Reykjavík 24. júlí 2016

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Lög og reglur.

Af hálfu Alþingis og stjórnvalda eru sett lög og reglur eins og léleg færibandavinna í verksmiðju. Margt af þessum samskiptareglum eru svo illa orðaðar að hægt er að túlka þær á marga vegu eins og gert er af dómurum. Því er það spurning hvort þegnarnir séu skyldugir til að fara eftir slíkum samskiptareglum sem er óskapnaður og hægt að túlka að eigin geðþótta?

Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir landsmenn hver tilgangurinn er með Alþingi og lagasetningu. Hvort þörf sé á yfir 1000 lögmönnum til þess að gera tilraunir til að túlka lögin fyrir landsmenn og síðan að leggja umhugsunarefnin í meðferð hjá afbrigði lögmannsstéttarinnar sem kallaðir eru dómarar. Þessi hringavitleysa í störfum Alþingis kostar landsmenn marga milljarða króna á hverju ári vegna óforsvaranlegra vinnubragða Alþingismanna.

Lög og reglur eiga að vera orðuð það vel og skynsamlega að hægt sé fyrir landsmenn að fara eftir þeim, þ.e. orðanna hljóðan, án þess að þurfa að kosta til þess fúlgur fjár að fá skýringar.

Meginreglan ætti að vera sú að orðanna hljóðan laganna ætti að vera svo skýr að ekki þyrfti sérstakar skýringar yfir 1000 manna sem hafa yfir þúsund mismunandi skoðanir og skýringar á merkingu laganna (hvað átt væri við með viðkomandi lagasetningu).

Ef svo vildi til með þróun samfélagsins og nýrra sjónarmiða þá ætti að vera einn stjórnlagadómstóll sem skæri úr um hvaða skilning ætti að leggja í viðkomandi lög eða lagagreinar. Slíkur úrskurður ætti að gilda um viðkomandi lög á meðan þau héldu gildi sínu.

Einstakir landsmenn eiga aldrei að þurfa að kosta fúlgu fjár, eins og framkvæmdin er í dag, til þess að fá skýringar á því hvernig túlka eigi viðkomandi samskiptareglur. Er því allt á ábyrgð landsstjórnar og Alþingis að hægt sé fyrir þegnana að fara eftir settum reglum og allur kostnaður við túlkun laga og reglna er á ábyrgð stjórnvalda og Alþingis.

Það getur aldrei orðið á ábyrgð ríkisins ef þegnarnir fara ekki að gildandi lögum séu þau skiljanleg fyrir hinn almenna borgara en ekki sniðin fyrir hagsmuni þegna sem stjórnast af græðgi eins og raunin hefur orðið um áratuga skeið.

Lagasetningar og reglugerðir sem sniðnar eru eftir þörfum þrasara og peningamanna. Lög sem hægt er að túlka á marga vegu eftir þörfum og einkahagsmunum nokkurra einstaklinga, sem eru í minnihluta þegnanna, er andstætt meginreglu stjórnskipunarlaga um jafnrétti þegnanna gagnvart túlkun og skilningi á gildandi lögum (jafnræðisreglu).

Ef ekki er farið á einn veg (ein túlkun) eftir lögunum vegna breytilegrar túlkunar af hálfu dómara, eftir því hverjum þarf að þjóna, endar það með ósköpum og upplausn samfélagsins.

Má gera ráð fyrir að ef lög eru það skýr og ætluð til að þjóna öllum þegnum landsins mætti skera niður í dómskerfinu um 75% og þar með einnig kostnað landsmanna vegna málaferla. Megin ástæða fyrir fjölgun í dómskerfinu og þ.m.t. fjölgun lögmanna á frjálsum markaði eru léleg vinnubrögð þingmanna við setningu laga. Tilgangur með lagasetningu þarf að vera skýr en ekki eins og gatasigti með þúsund götum eða fleiri fyrir þrasara til að þrasa um.

Það hlýtur að vera ljóst hverjum meðal manni að eitthvað er að í lagasetningu þegar eigendur einstakra lögfræðiskrifstofa geta greitt sér milljarða í arð eftir starfsárið auk eðlilegra launa samkvæmt skattframtali. Umræddur gróði lögmannanna stafar af slakri frammistöðu við setningu laga. Lög sem túlka má á marga vegu allt eftir hugmyndaflugi viðkomandi.

Því má einnig spyrja hverjir hafa efni á að greiða fyrir þjónustuna? Svarið er; að það eru peningamenn, sem hyglað er af löggjafarþinginu með óskýrum og og teygjanlegum ákvæðum laga, en ekki hinn almenni borgari.

Huga þarf að því hvort breyta þurfi grundvelli lagasetningar þannig að allt sem ekki er leyfilegt samkvæmt lagatexta sé bannað.

Reykjavík 23. júlí 2016

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


Kostnaður við slys erlendra ferðamanna.

Enn og aftur hafa orðið atburðir á Íslandi þegar erlendir ferðalangar verða fyrir miklum áföllum á hættulegu landsvæði Íslands. Þessi áföll hafa orðið vegna vanhugsaðra aðgerða ferðalanga sem telja sig óskeikula og færa til að ferðast um hættulegar slóðir landsins á fífldirfskunni einni.

Meðlimir björgunarsveita landsins hafa fengið að reyna kunnáttu sína við erfiðar aðstæður með tilheyrandi kostnaði og fjarveru frá sinni föstu vinnu.

Hvenær ætla stjórnvöld að koma reglu á viðdvöl og umferð ferðamanna á Íslandi? Er ekki kominn tími til þess að ferðamönnum sem koma til landsins verði gert skylt að hafa ferðatryggingu sem tryggir greiðslu alls kostnaðar er getur hlotist af óforsvaranlegri ferðamennsku vegna fífldirfsku og vanþekkingar á hættum er leynast víða utan alfaraleiða?

Mikið hefur verið rætt og skrifað um svokallaðan ferðamannapassa sem átti að greiða fyrir en gufaði upp í mótmælum þeirra sem töldu sig verða af ómældum gróða ef slík greiðsla kæmi til.

Rétt þykir að benda á að fyrir tólf árum var komuskattur á hvern ferðalang sem kom til Bermuda eyja. Varð hver farþegi að greiða þennan skatt áður en hann fékk leyfi til á stíga á land á Bermuda. Nam þessi skattur eða ferðamannapassi rúmum 100$ U.S.A. eða tæpum hundraðþúsund krónum íslenskum fyrir 6 manna fjölskyldu árið 2004. Þar af leiðandi er greiðsla kostnaðar vegna ferðamanna við komu til annarra ríkja ekkert nýmæli.

Það skal viðurkennt að mistök eða fífldirfska ferðamanna koma sér vel fyrir þjálfun björgunarsveitarmanna. Björgunarsveitir eru skipaðar sjálfboðaliðum og þeir setja sig oft í hættu við að aðstoða fífldjarfa ferðamenn sem hafa lent í hremmingum.

Hverjir greiða laun og annan kostnað við björgunaraðgerðir af hálfu björgunarsveitanna aðrir en íslenskt samfélag? Því er fyrir löngu kominn tími til að krefjast þess að ferðalangar hafi ferðatryggingu sem standi undir kostnaði við þá aðstoð er veita þarf við mislukkaðar ferðir erlendra ferðamanna er leiða til leitar og björgunar. Ferðatrygging á að vera fylgigagn ferðaskilríkja ferðamanna.

Þeir sem grætt hafa á ferðamönnum undanfarin ár óttast tekjumissi við tilkomu kvaða eins og greiðslu vegna ferðamannapassa eða sambærilega tryggingu, en kostnaður vegna gróða þessara aðila lenda á íslenskum þegnum en ekki af fullum þunga á þjónustuaðilum ferðamanna.

Væri fróðlegt fyrir Íslendinga að fá upplýsingar um kostnað vegna leitar og björgunar þeirra tveggja ferðamanna sem lentu í áföllum í vikunni 9-15 júlí 2016.

Það er ástæðulaust að íslenskt samfélag greiði stórfé vegna ferða fífldjarfra ferðalanga um óbyggðir Íslands. Einnig er full ástæða til þess að huga að því hvaða skaða náttúra Íslands verður fyrir vegna fjölgunar ferðamanna til landsins. Landverndarsinnar fjargviðrast út af vegagerð og raflínulögnum um landið, sem ætlaðar eru til að auka þægindi landsmanna, og slíkar aðgerðir taldar spilla íslenskri náttúru. Minna er rætt um, af hálfu landverndarsinna, þann gróður sem troðinn er niður að ógleymdu þess affalls sem ferðamenn skilja eftir á ferðum sínum s.s. saur og rusl sem fréttir hafa borist af.

Græðgi þjónustuaðila í ferðaþjónustu má ekki verða alls ráðandi þegar kemur að málum er varða alla landsmenn. Útlit er fyrir að náttúra Íslands hafi orðið fyrir ómældum skaða vegna ágengni erlendra ferðamanna nú þegar, á sama tíma og þjónustuaðilar við ferðamenn gera sér vonir um ennþá meiri fjölgun þeirra og þar af leiðandi hlutfallslegri aukningu á náttúruspjöllum.

Gullaldargræðgi Íslendinga er heimsfrægt fyrirbæri s.b. hin íslensku bankarán sem fræg eru frá árinu 2008 og laxeldisævintýrið ásamt fleiri atvikum úr sögu landsins. Gengdarlausar hótelbyggingar nútímans á Íslandi verða innan fárra ára eins og draugaþorpin í Vesturheimi sem fræg eru frá tímum landnáms hvíta villidýrsins á þeim slóðum. Kostnaður við þessar byggingar (hótel) lenda á landsmönnum í nýju bankahruni þegar hóteleigendur neita að greiða af lánum sínum líkt og gerðist með laxeldið.

 

Háir vextir á Íslandi (útlánsvextir banka)eru tilkomnir vegna mikilla affalla á lánum bankanna til gróðapunga eins og hótelbyggjenda, laxeldissina og fleiri slíkra sem vilja græða á kostnað samborgara sinna.    

Hvort hrópa eigi: „Lengi lifi íslensk gullaldargræðgi“ verður öðrum látið eftir.

Reykjavík 17. júlí 2016

Kristján S. Guðmundsson

fv. skipstjóri


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband